Tryggingagjald o.fl.

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 17:19:31 (5915)

2002-03-11 17:19:31# 127. lþ. 94.7 fundur 582. mál: #A tryggingagjald o.fl.# (reiknað endurgjald, breyting ýmissa laga o.fl.) frv. 65/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[17:19]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að inna hæstv. ráðherra eftir því, vegna umfjöllunar hér í greinargerð um þetta frv. og sömuleiðis þess sem fjallað er um í III. kafla og varðar lífeyrismál eða skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Það má eiginlega ráða af þessari umfjöllun að einhver brögð hafi verið að því að sjálfstætt starfandi aðilar hafi ekki fullnægt þeirri ótvíræðu lagaskyldu að greiða til lífeyrissjóðs af öllum tekjum sínum. Hér er lagt til, með leyfi forseta: ,,... að í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, verði afdráttarlaust kveðið á um að reiknað endurgjald manns sem vinnur við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi vegna eignar- eða stjórnunaraðildar myndi stofn til lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.``

Það væri væntanlega ekki ástæða til að taka þetta sérstaklega fram eða fara í þessa breytingu nema vegna þess að menn hafi ástæðu til að ætla að einhver brögð hafi verið að því að greiðslur af þessu tagi hafi ekki alltaf myndað þennan stofn til greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóða. Ef svo er þá er þar auðvitað um alvarleg frávik að ræða frá þeirri reglu sem ætlunin var að gera altæka, það ég best veit, að af öllum launatekjum manna skyldu greiðast þessi iðgjöld. Mig fýsir þannig að vita hvort hæstv. fjmrh. geti gefið einhverja nánari skýringar á því hvað þarna liggur að baki.