Tryggingagjald o.fl.

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 17:36:16 (5920)

2002-03-11 17:36:16# 127. lþ. 94.7 fundur 582. mál: #A tryggingagjald o.fl.# (reiknað endurgjald, breyting ýmissa laga o.fl.) frv. 65/2002, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[17:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir undirtektina við þetta frv. Hún hreyfði hér nokkrum mikilvægum atriðum í ræðu sinni að því er varðar fjölgun einkahlutafélaga. Ég treysti mér ekki til að fullyrða að sú fjölgun sé með einhverjum hætti óeðlileg. Ég minni á að eitt ákvæðið í lögunum sem við samþykktum fyrir jól fól beinlínis í sér að fólki var boðið upp á að flytja rekstur úr einkarekstrarforminu yfir í einkahlutafélag án þess að af því væri reiknaður skattskyldur söluhagnaður. Það var alveg markvisst gert, hugmyndin var sú að hjálpa ýmsum aðilum að brjótast út úr þeim viðjum sem viðkomandi rekstur gat verið kominn í, kannski í útgerð, kannski í vinnuvélarekstri, kannski í einhverjum öðrum rekstri tengdum persónu viðkomandi atvinnurekanda en sem viðkomandi gat ekki hætt að reka eða komið yfir til afkomenda sinna eða með öðrum hætti losað sig út úr án þess að greiða heilmikinn skatt af hinum ímyndaða útreiknaða söluhagnaði. Við vissum mætavel að þessum félögum mundi fjölga töluvert og þeim hefur vissulega fjölgað. Þó að tveir mánuðir séu kannski of skammur tími til að draga víðtækar ályktanir tel ég ekki að þær tölur þurfi í sjálfu sér að vera neitt óeðlilegar.

Ég tek undir það sem þingmaðurinn sagði, við þurfum að halda vöku okkar gagnvart þeim aðilum sem hyggjast reyna að nota þetta kerfi og misnota það sér til ávinnings með óeðlilegum hætti. Þetta frv. er liður í því að tryggja að menn fái ekki tækifæri til þess, hvorki að því er varðar tryggingagjald né greiðslur í lífeyrissjóði. Og síðan hefur auðvitað ríkisskattstjóri gefið út mjög ákveðnar reglur um viss lágmörk að því er varðar reiknað endurgjald.