Tollalög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 17:51:58 (5923)

2002-03-11 17:51:58# 127. lþ. 94.8 fundur 583. mál: #A tollalög# (sektir, barnabílstólar) frv. 66/2002, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[17:51]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir litlu frv. sem er með tveimur efnisatriðum. Hér er um að ræða frv. til laga um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, á þskj. 912.

Tilefni frv. eða tilgangur er annars vegar að rýmka heimildir tollstjóra til þess að ljúka málum með sektarboði til samræmis við heimildir lögreglustjóra í sambærilegum málum en hins vegar er tilgangur frv. að lækka gjaldtöku ríkisins á barnabílstólum sem eru nauðsynlegur öryggisbúnaður fyrir börn sem eru farþegar í bifreiðum.

Nánar tiltekið er í 1. gr. frv. lagt til að 2. mgr. 139. gr. tollalaga verði breytt þannig að tollstjóra verði heimilað að ljúka máli vegna brota á tollalögum með sektarboði ef brot er skýlaust sannað og það varðar ekki hærri sekt en 300 þús. kr. Í núverandi lagaákvæði er tollstjóra heimilt að ljúka máli með sátt ef brot varðar ekki hærri sekt en 75 þús. kr.

Tilefni þessarar breytingar er að dómsmrh. hefur með heimild í 115. gr. einkamálalaga, nr. 19/1991, heimilað með reglugerð að lögreglustjórar ljúki máli með sektarboði ef það er þeirra mat að málið varði ekki þyngri refsingu en sekt að fjárhæð 300 þús. kr. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til í frv. næst samræmi milli þessara tveggja lagabálka og vænta má þess að minni háttar málum ljúki nú frekar en áður með sátt eftir að heimildir tollstjóra hafa verið rýmkaðar með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.

Í 2. gr. frv. er lagt til að tollur á barnabílstólum verði felldur niður ef stólarnir eru viðurkenndir samkvæmt öryggisstöðlum frá Evrópusambandinu, Bandaríkjunum eða Kanada. Samkvæmt núgildandi tollskrá er lagður 10% almennur tollur á barnabílstóla ef þeir eru upprunnir í löndum utan Evrópusambandsins. Tilefni þeirrar breytingar er að fjmrn. hefur orðið þess áskynja að nokkrir evrópskir framleiðendur barnabílstóla hafa flutt framleiðslu sína til Asíu og þar með hafa tollar á framleiðslu þeirra hækkað. Um er að ræða vörur sem eru tengdar notkun öryggisbelta í bifreiðum en barnabílstólar eru ýmist búnir öryggisbeltum eða eru notaðir með öryggisbeltum sem fyrir eru í bifreiðum. Slík belti bera engan toll.

Í umferðarlögum er kveðið á um að skylt sé að nota barnabílstóla þegar börn eru farþegar í bílum enda er um nauðsynlegan öryggisbúnað fyrir þau að ræða. Samkvæmt framansögðu er því lagt til að almennur tollur verði felldur niður af stólunum fullnægi þeir öryggisstöðlum.

Ástæðulaust er, herra forseti, að fjalla frekar um þetta stutta frv. en ég vænti þess að málinu verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og ég legg til að málið fari til efh.- og viðskn.