Tollalög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 17:55:13 (5924)

2002-03-11 17:55:13# 127. lþ. 94.8 fundur 583. mál: #A tollalög# (sektir, barnabílstólar) frv. 66/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[17:55]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta frv. er eiginlega algerlega tvískipt og varðar tvo alls óskylda hluti í tollalögum ef ég hef rétt lesið. Fyrra atriðið er að lykta sektarfjárhæð sem heimilar tollstjóra að ljúka málum með sátt eða með því að menn greiði sekt í stað þess að málin gangi þá lengra og það hljómar í sjálfu sér skynsamlega að rýmka það svigrúm. Ég tel mig hins vegar ekki dómbæran á það hvar nákvæmlega þessar fjárhæðir liggja því að ég átta mig ekki alveg á því hversu alvarleg brot eða ágreiningsatriði liggja þar að baki þegar sektarupphæðir eru annars vegar eins og þær hafa verið, 75 þús. kr. eða þá 300 þús. kr. sem kæmu þar í stað.

Það er fyrst og fremst hitt atriði frv. sem varðar niðurfellingu tolla á barnabílstólum sem mig langar til að víkja að og fagna að sjálfsögðu og þó fyrr hefði verið. Sá tollur sem þarna hefur verið er kannski ekki ýkja mikill, eða 10%, en fer nú niður í núll. En það er fyrst og fremst grundvallaratriði, prinsippatriði sem þar er á ferðinni sem skiptir máli að mínu mati og hefði náttúrlega fyrir löngu átt að meðhöndla sjálfsögð og bráðnauðsynleg öryggistæki eins og barnabílstóla, viðurkennda barnabílstóla, með sambærilegum hætti og öryggisbelti eða annan slíkan búnað.

Mig langar hins vegar til að spyrja hæstv. ráðherra í þessu sambandi hvort farið hafi verið yfir það hvernig ýmis annar öryggisbúnaður er meðhöndlaður í tollalegu tilliti. Almennt séð er kannski leitun að betri fjárfestingu en þeirri að reyna að hvetja til notkunar hvers kyns búnaðar sem getur aukið öryggi í umferðinni og dregið úr slysum. Mér er nær að halda, eða ég óttast að það kunni að vera svolítið tilviljanakennt samt hvernig slíkur búnaður er meðhöndlaður og að jafnvel í sumum tilvikum lendi öryggisbúnaður í tollum sem hluti af bifreiðum, af einhverjum staðalbúnaði bifreiða, og kannski er ekki alltaf auðvelt að koma við einhverri aðgreiningu í þeim efnum. En engu að síður leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðherra að þessu því að ég geri ráð fyrir að ráðuneytið leggi til grundvallar ákvörðunum sínum að þessu leyti einhver vísindi sem ráðuneytið er með frá aðilum sem því eru innan handar, t.d. Umferðarráði eða dómsmrn. eða öðrum slíkum aðilum.

Það þarf auðvitað ekki að minna á, herra forseti, hversu aftarlega á merinni við Íslendingar erum, því miður, hvað varðar umferðaröryggi og sorglegt til þess að vita hversu hægt gengur að bæta þar úr. Því miður eru fréttirnar allt of oft á hinn veginn að við erum ekki að ná neinum þeim árangri sem menn hafa bundið vonir við hvað það varðar að draga úr alvarlegum slysum o.s.frv. og þá getur búnaður af þessu tagi, ef hann er sem ódýrastur og m.a. með stjórnvaldsaðgerðum af því tagi að fella niður tolla og aðflutningsgjöld, hvatt til notkunar hans, því að í því eru auðvitað fólgin ákveðin skilaboð í leiðinni að stjórnvöld séu að reyna að stuðla að því að slíkur búnaður sé notaður. Það væri því fróðlegt ef hæstv. ráðherra gæti aukið einhverju við þekkingu okkar á því hvort þessi mál hafi verið yfirfarin af ráðuneytinu, hvort menn telji að gott samræmi sé í þeirri tollaframkvæmd sem viðhöfð er í þessum efnum eða hvort þar sé enn verk óunnið sem lyti þá að því að fara yfir og samræma þetta.