Samkeppnislög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 18:32:40 (5932)

2002-03-11 18:32:40# 127. lþ. 94.11 fundur 596. mál: #A samkeppnislög# (EES-reglur, ríkisaðstoð) frv. 54/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[18:32]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Aðeins fáein orð um frv. sem að öðru leyti bíður betri tíma að ræða nánar. Það fyrsta sem athygli vakti var að hér mælti hæstv. fjmrh. fyrir frv. til laga um breytingu á samkeppnislögum, nr. 8/1993, sem eins og allir vita heyra undir viðskrh. Skýringin kom síðan fram og hana er að finna í 3. gr. frv. og það má út af fyrir sig mín vegna taka hana gilda en þetta er þó fremur óvenjuleg stjórnsýsla, að ráðherra mæli fyrir stjfrv. um mál sem ekki heyrir undir viðkomandi ráðherra og það er eingöngu vegna þess að í raun og veru er reglugerðarstoð til handa fjmrh. sett inn í samkeppnislög, í 48. gr. samkeppnislaga, um að ráðherra geti sett nánari reglur um framkvæmd reglna EES-samningsins um ríkisaðstoð til aðila hér á landi. Og það vekur náttúrlega strax þá spurningu: Hafa slíkar reglur verið settar, eru þær til í dag?

Í öðru lagi er hér verið að stofna til býsna afgerandi ákvæða þar sem er t.d. ákvæði um að endurgreiða skuli ríkisstuðning eða fjárhagsstuðning sem farið hafi úr opinberum sjóðum og flokkast sem ríkisaðstoð ef Eftirlitsstofnun EFTA ákveður að fyrir þeim hafi ekki verið stoð og þá skuli þeir veskú endurgreiddir og með vöxtum. Fljótt á litið virkar þetta sem nokkuð harkalegt ákvæði því að ég geri ekki ráð fyrir því að menn séu yfirleitt meðvitaðir um það að ef þeir fá fjárstuðning frá ríkinu, framlög eða styrki, þá geti mögulega skapast sú staða að þeir verði síðar krafðir um endurgreiðslu á þeim fjármunum og þá með vöxtum, vegna þess þá væntanlega að stjórnvöld, þau hin sömu og reiða af hendi ríkisstyrkina, hafi farið út fyrir ramma laga og reglna eða út fyrir þau ákvæði sem eiga þá að gilda um slíkan ríkisstuðning og samræmast ákvæðum EES-samningsins og evrópskum rétti á því sviði. Það er þess vegna, herra forseti, alveg ástæða til að farið sé vandlega yfir það að þarna sé a.m.k. ekki gengið lengra en óhjákvæmilegt er að gera á grundvelli ákvæða þessarar tilskipunar því að eins og ég segi þá gæti þetta verkað, a.m.k. við fyrstu sýn, sem nokkuð harkalegt ákvæði.

Í þriðja lagi, herra forseti, væri fróðlegt að fá um það upplýsingar hvaða tilvik gætu fallið hér undir kerfi eða undir fjárhagsstuðning eða ríkisaðstoð sem þarna gæti komið til. Í raun og veru hefði þurft að fylgja frv. einhvers konar kortlagning á því, herra forseti, hvað hér gæti átt í hlut. Erum við að tala um byggðatengdar aðgerðir? Gætu mögulega t.d. vaxtaniðurgreiðslur eða jöfnunaraðgerðir þar sem ríkið kemur til sögunnar eða er þátttakandi í einhverjum tilvikum flokkast undir slíka ríkisaðstoð? Ég vek athygli á því orðalagi sem er í athugasemdum að samkvæmt ákvæði 88. gr. Evrópusáttmálans sem sé sambærilegt við 62. gr. EES-samningsins skuli stöðugt ,,fylgjast með öllum kerfum vegna ríkisaðstoðar sem eru til á yfirráðasvæðum samningsaðila, svo og öllum áætlunum um að veita slíka aðstoð eða breyta henni, ...`` Þarna mætti því ætla að ýmislegt gæti komið til skoðunar.

Nú er það svo með t.d. framkvæmd byggðastefnu hér, þar sem að vísu er nú ekki um merkilega styrki að ræða kannski en þó gætu þar einhverjir hlutar flokkast undir ríkisaðstoð eða fjárhagsstuðning, t.d. framlög til fjárfestingarsjóða og nýsköpunarsjóða, til atvinnuþróunarfélaga eða þá þeir takmörkuðu styrkir til einhverra verkefna sem Byggðastofnun kann að veita, að þetta er ekki samræmt með sama hætti hér á landi við Evrópuréttinn og er gert t.d. í Noregi, það ég best veit. Vegna þess að Norðmenn eru aðilar að byggðaþróunaráætlunum Evrópusambandsins á sjálfstæðum forsendum, svokallaðri Interreg-áætlun, og það fyrirkomulag sem þeir viðhafa hefur þar af leiðandi hlotið úttekt og skoðun og verið tekið gilt að það fullnægi öllum reglum Evrópuréttarins að þessu leyti. Það sama á ekki endilega við um fyrirkomulag hjá okkur.

Oft er deilt um það hvað skuli teljast ríkisaðstoð, hvað skuli flokkast sem slíkt og þar af leiðandi hefði, herra forseti, verið áhugavert að sjá sem kortlagningu með frv., og ég beini því til hv. þingnefndar sem fær málið til skoðunar, að farið verði yfir það hvert gildissvið þessara ákvæða er, hvað gæti fallið undir þau, hversu víðtæk eru þessi ákvæði eins og þau eru hér samkvæmt orðanna hljóðan.

Eitt atriði enn er í frv., herra forseti, að verið er að taka inn ákvæði sem tengjast rétti Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, til að afla gagna og framkvæma vettvangsskoðanir. Það er áhugavert í því sambandi að nú nýlega hefur reynt með tímamótahætti á ákvæði íslensku samkeppnislaganna hvað varðar stöðu Samkeppnisstofnunar að þessu leyti og varð umdeilt mál þegar Samkeppnisstofnun fór í sína miklu rassíu gegn olíufélögunum. Ég ætla ekki að gera það sérstaklega að umtalsefni. Ég bendi á að það er ekki eins og það sé séríslenskt fyrirbæri og hér er einmitt verið að styrkja þau ákvæði Eftirlitsstofnunar Evrópska efnahagssvæðisins, ESA, og reyndar dómstólsins, sem m.a. fela þessum aðilum vald á sviði þess að fylgjast með reglum um ríkisaðstoð og tryggja að þau geti sinnt hlutverki sínu eða skyldum á því sviði.

Í c-lið er t.d. talað um að Eftirlitsstofnun EFTA hafi umboð til þess að ,,rannsaka bókhald og önnur viðskiptaskjöl og taka afrit eða krefjast þeirra``. Fara inn á allt athafnasvæði og land hlutaðeigandi fyrirtækis; fara fram á munnlegar skýringar á staðnum o.s.frv.

Ég man einmitt að þessi ákvæði bar hér á góma þegar þau voru sett á sínum tíma, tekin upp í tengslum við upptöku á Evrópuréttinum á þessu sviði og staðfestingu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, og það var líka vitnað til þessara ákvæða þegar samkeppnislög voru hér til umfjöllunar fyrir nokkrum árum. Og það er alveg ljóst að þessar eftirlitsstofnanir hafa þarna mjög sterkan rétt og hann helgast að sjálfsögðu af nauðsyn þess að þær geti vafningalaust sinnt skyldum sínum og kallað til sín allar upplýsingar eða borið sig eftir þeim eins og þeim er nauðsynlegt til að geta sinnt sínu mikilvæga hlutverki.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um frv. fleiri orð. Ég vænti þess að hv. þingnefnd fari yfir þessi atriði sem ég hef gert að umtalsefni. Ég endurtek að mér hefði þótt að með frv. hefðu mátt fylgja aðeins ítarlegri upplýsingar og aðeins nánari kortlagning á því hvað undir þessi ákvæði kann að falla af því tagi sem í gangi er eða viðgengst hér og heimfæra mætti undir ríkisaðstoð eða annan fjárhagsstuðning sem vörðuðu viðkomandi svið.