Eiturefni og hættuleg efni

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 18:47:37 (5934)

2002-03-11 18:47:37# 127. lþ. 94.12 fundur 587. mál: #A eiturefni og hættuleg efni# (EES-reglur, ósoneyðandi efni) frv. 68/2002, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[18:47]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Frv. það sem ég mæli fyrir til breytinga á lögum um eiturefni og hættuleg efni er flutt vegna væntanlegrar innleiðingar reglugerðar Evrópuþingsins og -ráðsins um efni sem eyða ósonlaginu.

Samkvæmt reglugerðinni eru hertar takmarkanir á notkun vetnisklórflúorkolefna og verður notkun þeirra alfarið bönnuð árið 2010. Til að aðlaga innflytjendur og framleiðendur efnisins að banninu mun verða gert ráð fyrir að þeim verði veittar takmarkaðar undanþágur frá banninu þangað til. Vetnisklórflúorkolefni eru ekki framleidd hér á landi en nokkrir aðilar flytja þau inn til notkunar í kælikerfum.

Í frv. er lagt til að teknar verði upp tvær nýjar málsgreinar í lög um eiturefni og hættuleg efni þar sem umhvrh. er veitt heimild til að banna innflutning og framleiðslu efna sem geta haft skaðleg áhrif á umhverfið. Jafnframt er lagt til að ráðherra geti falið Hollustuvernd ríkisins að veita tímabundnar undanþágur frá slíku banni. Rétt þykir að lögfesta heimildina en fram að þessu hafa ákvæði sem þessi verið í reglugerðum, settum af umhvrh. Einnig er lagt til að Hollustuvernd ríkisins verði heimilt að taka mið af markaðshlutdeild fyrirtækja þegar stofnunin veitir framangreindar undanþágur og geti hafnað umsóknum nýrra aðila á markaði þegar stefnt er að algjöru banni á innflutningi og framleiðslu efnisins. Með hliðsjón af íslenskri dómaframkvæmd er nauðsynlegt að lagastoð sé fyrir takmörkun af þessu tagi.

Þrátt fyrir að tilefni frv. sé ákvæði framangreindrar reglugerðar EB um bann við notkun vetnisklórflúorkolefna er ákvæðið orðað þannig að því megi beita um sams konar takmörkun annarra umhverfisskaðlegra efna í framtíðinni.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið meginefni frv. og legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhvn.