Eiturefni og hættuleg efni

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 19:30:08 (5937)

2002-03-11 19:30:08# 127. lþ. 94.12 fundur 587. mál: #A eiturefni og hættuleg efni# (EES-reglur, ósoneyðandi efni) frv. 68/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[19:30]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á lögum um eiturefni og hættuleg efni sem hæstv. umhvrh. hefur mælt fyrir er ekki ýkja stórt í sniðum. Engu að síður er þetta í sjálfu sér stórmál og vaxandi áhyggjur fólks af eiturefnum og hættulegum efnum eru vissulega staðreynd. Stöðugt eru fleiri efni sem við áður töldum vera meinlaus eða hættulítil að koma í þennan flokk. Þess vegna er það markmið þessara laga að ráðherra geti í reglugerð bannað innflutning og framleiðslu eiturefna að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins góðra gjalda vert. Hins vegar er heimildin býsna opin. Í fyrsta lagi er það reglugerðarákvörðun hvaða efni það skuli vera sem um er að ræða, en ekki bundið í lögum. Þarna er heldur ekki um neina beina tilvísun að ræða til þess nákvæmlega um hvers konar efni verið er að tala, þó svo vísað sé til ósoneyðandi efna í greinargerð og nokkurra annarra efnaflokka.

Herra forseti. Ég tel að það hefðu átt að vera skýrari ákvæði í lögunum sjálfum um hvaða efni væri um að ræða, að reglugerðarákvæðið væri ekki svona rúmt eins og þarna er heldur væri ákvæði í lögunum sem tæki til þeirra efnaflokka sem um væri að ræða.

Sömuleiðis vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. umhvrh.: Hvaða tök hefur ráðuneytið til að fylgja þessu eftir? Hvaða tök hefur það til að sannreyna magn eða tilurð einstakra efna, hættulegra efna, sem gætu komist á þennan lista í innflutningi, því sjaldnast er þarna um hrein efni að ræða, hættuleg efni í hreinum efnasamböndum? Yfirleitt er þetta í einhverjum öðrum vörum. Ef ég skil frv. rétt þá er verið að tala um þessi hættulegu efni, eiturefni, hvort sem þau eru flutt inn í hreinu formi eða í öðrum vörutegundum. Til þess að geta sannreynt það þarf býsna mikið eftirlit til að það verði virkt.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig er staða okkar í raun til þess að standa að þeim upplýsingagrunni og rannsóknagrunni sem þarf að vera til staðar og hverjir eru möguleikar hans til að takast á við þetta verkefni sem hér er verið að tala um? Ég legg áherslu á að ég undirstrika mikilvægi þess að svo sé hægt.

Þá vil ég líka spyrja hæstv. ráðherra um niðurlag 1. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Við veitingu innflutnings- og framleiðsluleyfa skv. 3. mgr. er heimilt að taka mið af markaðshlutdeild umsækjanda undanfarin fimm ár. Þegar stefnt er að algeru banni við innflutningi og framleiðslu efnis er heimilt að hafna umsókn aðila sem hefur ekki flutt inn eða framleitt efnið áður.``

Mér finnst þessi setning standa svolítið á skjön við sjálfa sig: ,,Þegar stefnt er að algeru banni við innflutningi og framleiðslu efnis er heimilt að hafna umsókn aðila sem hefur ekki flutt inn eða framleitt efnið áður.``

Var ekki meiningin að banna það? Þá skiptir ekki máli hvort einhver hefur flutt það inn í þessu og þessu magni áður eða ekki. Mér finnst þessi setning vera svolítil þversögn. Auk þess tekur málsgreinin og frv. til algers banns við innflutningi en er ekki eins konar magnráðstöfun, þ.e. að tekið sé fram að það megi leyfa svo og svo mikið magn af efninu eins og þessar greinar virðast gefa tilefni til, að ekki eigi að banna það heldur takmarka það við eitthvert ákveðið magn. Þó stendur í upphafsmálsgrein að markmiðið sé að fá heimild til þess að banna innflutninginn. Ég sé einnig að í greinargerðinni er talað um magntengdan innflutning. Mér finnst því þetta bann og hins vegar magntengdur leyfilegur innflutningur, virðulegur forseti, stangast svolítið á í frumvarpstextanum og greinargerðinni líka.

Ég vil því fara þess á leit við hæstv. umhvrh. að hún skýri aðeins betur hvað sé átt við þegar annars vegar er talað um að fá heimild til að banna og hins vegar að leyfa einhvern magntengdan hluta innflutningsins, samanber greinargerðina á bls. 2, þar sem stendur ofarlega, með leyfi forseta:

,,Heildarmagn efnis sem leyft er að flytja inn á ári hefur verið ákveðið í reglugerð og Hollustuvernd ríkisins hefur úthlutað innflutningsheimildum innan þeirra marka.``

Þar er verið að tala um ákveðið magn sem má leyfa. En frumvarpsgreinin höfðar fyrst og fremst til bannsheimildar umhvrh., þ.e. til að banna innflutning á efnunum.