Eiturefni og hættuleg efni

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 19:37:14 (5938)

2002-03-11 19:37:14# 127. lþ. 94.12 fundur 587. mál: #A eiturefni og hættuleg efni# (EES-reglur, ósoneyðandi efni) frv. 68/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[19:37]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Það veldur örlitlum vonbrigðum að lagt er fram enn eina ferðina frv. sem breytir að örlitlu leyti lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, en enn fáum við ekki að sjá heildarendurskoðun laganna. Eins og kunnugt er hefur verið boðað að heildarendurskoðuninni verði lokið árið 2002. Síðast, liðið vor, þegar við fengum frv. af þessu tagi hingað inn til Alþingis þá var það frv. í máli 369 á þskj. 585 þar sem verið var að gera smávægilegar breytingar á þessum sömu lögum. Í allri umfjöllun umhvn. á þeim tíma um það mál sem laut að snyrtivörum og hættulegum efnum í snyrtivörum var á það lögð mikil áhersla af starfsmönnum umhvrn. og raunar hæstv. umhvrh. sjálfum að heildarendurskoðun laganna stæði yfir og þegar ákveðin nefnd sem vann tillögur þær sem umhvn. hafði til umfjöllunar varðandi hættuleg efni í snyrtivörum tók til starfa kom fljótlega í ljós að nauðsynlegt væri að gera miklar lagfæringar sem fyrst á ákveðnum atriðum sem mundu þá ekki getað beðið heildarendurskoðunarinnar. Nú spyr ég: Er enn verið að gera hér smávægilegar lagfæringar á ákveðnum atriðum sem geta ekki beðið þessarar heildarendurskoðunar? Mér finnst líka alveg tilefni til að spyrja hvers vegna standi svo mikið á heildarendurskoðuninni. Hér er um gífurlega mikilvæga löggjöf að ræða og að sjálfsögðu er eðlilegt í ljósi breyttra tíma í umhverfismálum og í ljósi ákvæða sem við erum að gerast aðilar að í alþjóðasamningum að löggjöf af þessu tagi þurfi öfluga endurskoðun á þetta löngum tíma, eða frá 1988. Stofninn í þessari löggjöf er það gamall. Því er alveg tímabært að spyrja hvenær við hv. þm. getum átt von á því að þessari heildarendurskoðun ljúki.

Á hitt skal auðvitað ekki kastað neinni rýrð að það þarf að vera skýlaust í lögum hvernig með þau efni sem þetta frv. fjallar um skuli farið. Ástæðan fyrir því að frv. af þessu tagi er flutt er náttúrlega sá hæstarréttardómur sem getið er í greinargerðinni. Það er sannarlega alvarlegt þegar löggjafinn fær aftur og aftur á sig áminningar frá dómstólum landsins um að við stöndum okkur ekki í lagasmíðinni, þ.e. að við höldum ekki áætlun, höldum ekki nægjanlegum dampi til þess að uppfylla eða innleiða þær tilskipanir sem samstarf okkar við Evrópulönd leggur okkur á herðar.

Í þessu sambandi má líka nefna samstarf okkar við Norðurlöndin því Norðurlöndin hafa lagt metnað sinn í það að gera eiturefnalöggjöf sína þannig úr garði að hún sé til fyrirmyndar og í fararbroddi. Ég segi að hæstv. ríkisstjórn Íslands hefði því að sjálfsögðu átt að taka sér stjórnvöld annars staðar á Norðurlöndunum til fyrirmyndar hvað þetta varðar og setja meira afl og meiri metnað og þá fleira fólk, ef það hefði þurft, í að endurskoða þessa löggjöf því að við lestur á áætluninni um sjálfbær Norðurlönd sér maður svart á hvítu hversu langt Íslendingar eru að dragast aftur úr í þessum málum og þá á ég fyrst og síðast við eiturefnalöggjöfina.

Það hefur komið fram í máli starfsmanna Hollustuverndar á fundum með umhvn. að við verðum að fara að fá löggjöf um nokkuð mörg atriði og ekki eru það nú vinnubrögð til fyrirmyndar, herra forseti, að ætla að leiðrétta þessa löggjöf stöðugt með því að stoppa upp í götin. Ég held því að full ástæða sé til þess að hæstv. umhvrh. geri þingheimi frekar ljóst hvenær við getum átt von á því að þessari heildarendurskoðun laganna ljúki því alveg nauðsynlegt er að slík heildarendurskoðun fari að líta dagsins ljós.