Eiturefni og hættuleg efni

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 19:41:58 (5939)

2002-03-11 19:41:58# 127. lþ. 94.12 fundur 587. mál: #A eiturefni og hættuleg efni# (EES-reglur, ósoneyðandi efni) frv. 68/2002, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[19:41]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið um þetta mál. Það er búið að beina til mín nokkrum spurningum sem ég mun freista að svara.

Í fyrsta lagi spurði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hvar við værum á vegi stödd varðandi þessi efni sem er verið að fasa út. Við erum þar stödd í dag varðandi þetta efni sem er hvatinn að frv. að það átti að fasa það út árið 2015. Það er sem sagt verið að herða á þeirri áætlun þannig að í stað þess á að fasa það út árið 2010. Það er verið að stytta þennan aðlögunartíma sem menn hafa til þess að fasa út efnið. Aðlögunartíminn er að styttast.

Bæði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Jóhann Ársælsson spurðu aðeins út í lagastoð varðandi þessi mál. Það er alveg skýrt varðandi fyrri málsgrein 1. gr. frv. sem við erum að fjalla hér um að samkvæmt dómi var talið að fullnægjandi lagastoð væri gagnvart þeirri framkvæmd að banna innflutning og framleiðslu ákveðinna hættulegra efna. Þó að dómurinn kvæði á um að orðalag mætti vera skýrara var talinn alveg fullnægjandi lagagrunnur á bak við það. Hins vegar varðandi seinni efnismálsgrein 1. gr. frv., þá var talið að skýrari lagastoð þyrfti. Þar koma inn ákvæði um að taka mið af markaðshlutdeild umsækjanda áður en farið er í að takmarka, þ.e. að menn geti sem sagt tekið mið af markaðshlutdeild. Það er auðvitað verið að úthluta takmörkuðum gæðum með því og úthlutað nokkurs konar kvóta miðað við hvað menn hafa verið að flytja inn á undanförnum árum. Því var talið að skýrari lagastoð þyrfti til þess að úthluta þeim gæðum. Og eftir hvaða reglum ætti þá að fara? En það kemur skýrt fram í seinni efnismálsgrein 1. gr. frv., með leyfi virðulegs forseta:

,,Við veitingu innflutnings- og framleiðsluleyfa skv. 3. mgr. er heimilt að taka mið af markaðshlutdeild umsækjanda undanfarin fimm ár. Þegar stefnt er að algeru banni við innflutningi og framleiðslu efnis er heimilt að hafna umsókn aðila sem hefur ekki flutt inn eða framleitt efnið áður.``

Hér er því verið að úthluta takmörkuðum gæðum, virðulegur forseti.

[19:45]

Hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði einnig út í hvort þetta væri eðlileg aðferð sem hér er lögð til. Ég tel að svo sé, að eðlilegt sé að hafa skýrar reglur um að við getum takmarkað innflutning á hættulegum efnum í reglugerð, eftir að hafa fengið tillögur frá Hollustuvernd ríkisins með þeirri aðferð sem við setjum hér fram.

Hv. þm. Jón Bjarnason kom í ræðu sinni inn á að hann teldi þetta of opna heimild, að það vantaði skilgreiningar. Ég tel að svo sé ekki. Það kemur fram í textanum ákveðin skilgreining sem er ekkert mjög opin, alls ekki. Það er verið að banna innflutning og framleiðslu eiturefna, hættulegra efna sem haft geta skaðleg áhrif á umhverfið. Þannig er alveg ljóst um hvaða efni hér er að ræða. Þetta verða að vera hættuleg efni, eiturefni sem geta haft skaðleg áhrif á umhvefið. Hins vegar eru efnistegundirnar sjálfar ekki nefndar. Hér er ákveðið að hafa þetta það opið að menn geti sett undir þessa heimild fleiri efni en einungis vetnisklórflúorkolefni.

Hv. þm. spurði einnig hvernig hægt væri að hafa eftirlit með þessu og sannreyna magn þessara efna. Ég tel að það sé ekki vandamál. Menn hafa upplýsingar um hverjir hafi verið að flytja inn þessi efni og þess vegna er sett inn í frv. að taka mið af innflutningi síðustu fimm ára. Af hverju til fimm ára, spyrja menn, en ekki sjö ára, þriggja o.s.frv.? Talið er nægilegt að taka síðustu fimm ár þannig að Hollustuvernd geti farið yfir þau fyrirtæki sem hafa verið að flytja inn þessi efni, þannig næst til allra innflutningsaðila og þeir fá þá allir aðlögunartíma, má segja.

Ég tel ekki að neina þversögn, virðulegur forseti, í seinni málsgrein þessa frv. Það að stefnt sé að banni þýðir ekki að menn hafni öllum umsóknum. Það er stefnt að banni í ákveðnum þrepum. Með því er veittur aðlögunartími þannig að menn minnka þrep fyrir þrep magnið sem flutt er inn. Í því felst ekki þversögn. Það kemur tiltölulega skýrt fram í textanum að verið er að veita magnbundnar og tímabundnar undanþágur sem verða svo smátt og smátt að engu. Þá yrði komið á algjört bann sem við stefnum að að sé árið 2010, eins og í öðrum Evrópuríkjum.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir talaði um heildarendurskoðun laganna. Það er rétt að heildarendurskoðun laganna hefur ekki verið endanlega unnin og þetta er smálagfæring á lögunum. Það kemur mjög skýrt fram í athugasemdum við þetta lagafrv. að vegna þess að ákvæði reglugerðar EB nr. 2037/2000 muni koma strax til framkvæmda sé ljóst að ekki sé hægt að bíða með þessa breytingu þar til nefnd skipuð af umhvrh. ljúki heildarendurskoðun laganna. Við erum að taka mjög lítinn part út úr þeirri heildarendurskoðun. Það blasir við að við teljum mikilvægt að hafa skýra lagastoð vegna þessarar aðferðar. Við ætlum tímabundið að veita undanþágur, magntengdar til ákveðinna aðila en ekki að hleypa nýjum inn. Því viljum við gera þessa breytingu og leggja fyrir þingið því að þótt hún sé smá er hún mikilvæg.

Við getum ekki beðið eftir heildarendurskoðun laganna. Í slíkri endurskoðun felst umfangsmikil vinna og ég verð að viðurkenna, og hef svo sem gert það áður í þessum ræðustól, að lögfræðingar okkar og sérfræðingar eru mjög uppteknir í öðrum málum í ráðuneytinu. Ég hefði gjarnan viljað ná að setja þá m.a. í þetta og aðra stefnumótun sem ég tel mikilvægt að fara í en lögfræðingar okkar hafa verið mjög uppteknir í umfangsmeiri kærumálum en menn hafa gert sér grein fyrir áður. Við erum nýbúin að úrskurða hér í Kárahnjúkavirkjun eins og menn þekkja. Við erum með úrskurð á Reyðarálið, það er á lokaspretti. Við erum með kæru inni sem við þurfum að úrskurða í varðandi jarðgöng á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Eins þurfum við að fjalla um kærumál gagnvart Villinganesvirkjun, Hallsvegi o.s.frv. Við erum fallin á tíma í öllum þessum kærum. Lögfræðingar okkar eru að vinna að þessu hratt og vel en við komumst ekki hraðar yfir þetta.

Varðandi það að við höldum ekki dampi við að innleiða Evrópusambandstilskipanir þá er það mál sem liggur þungt á umhvrn. af því að svo margar tilskipanir falla undir okkur og sérstaklega undir Hollustuvernd ríkisins. Umhvrn. er það ráðuneyti sem sinna þarf flestum tilskipunum af öllum ráðuneytum. Mig minnir að dómsmrn. komi þar á eftir. Við erum að fara yfir þessi mál núna og erum svo sem alltaf að því. Hins vegar er alveg ljóst að þegar við erum að miða okkur við önnur lönd þá erum við bara 280 þúsund manna þjóð og því með takmarkaðan fjölda til að vinna að þessum málum. Ég held að við stöndum okkur hins vegar þokkalega í þessum málum þrátt fyrir allt.