Eiturefni og hættuleg efni

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 19:56:39 (5943)

2002-03-11 19:56:39# 127. lþ. 94.12 fundur 587. mál: #A eiturefni og hættuleg efni# (EES-reglur, ósoneyðandi efni) frv. 68/2002, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[19:56]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála því að þetta er ekki nógu gott en þetta er bara staðreyndin. Svona eru málin. Það er annar úrskurður sem við erum enn þá seinni með, ef ég man rétt, þ.e. úrskurðurinn um Hallsveg. Þar erum við komin enn þá lengra yfir tímafrestinn. Og þetta er sú staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Það er mikið álag á lögfræðingum okkar sem vinna þessa úrskurði, lagalega séð. Við erum með aðra sérfræðinga sem fara yfir málin og við höfum ekki ráðið í stöður svo hratt að við gætum haldið í við þau mál sem hafa komið inn til ráðuneytisins. (Gripið fram í.) Það hafa komið inn kærur á fleiri mál en menn sáu fyrir þegar umhverfismatslögin voru sett.

Við munum núna endurskoða umhverfismatslögin. Það er ekkert víst að málin verði áfram í þessu ferli sem þau eru í núna, þar sem ráðuneytið þarf meira eða minna að fara yfir umhverfismat sem kemur inn í kæruferli og skoða alveg ofan í grunninn. Þannig að maður spyr sig hvort þetta séu eðlileg vinnubrögð. Ég er farin að stórefast um það.

Ég býst við því að við gerum talsverðar breytingar á umhverfismatslögunum þannig að allt samráðsferlið verði stóraukið. Hugsanlega verður úrskurðarvaldið ekki hjá Skipulagsstofnun eins og verið hefur verið. Mér skilst að svo sé það ekki í nokkru öðru Evrópuríki. Við munum því taka djúpa umræðu um þetta á öðrum vettvangi og á þessum vettvangi líka síðar þegar þau mál koma fram.