Lyfjalög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 20:34:30 (5953)

2002-03-11 20:34:30# 127. lþ. 94.15 fundur 601. mál: #A lyfjalög# (rekstur lyfjabúða o.fl.) frv. 63/2002, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[20:34]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki er það nú þannig að bensínafgreiðslumennirnir eða þeir sem afgreiða í matvöruverslununum séu að telja pillurnar. En pillurnar eru afgreiddar frá lyfjafræðingum og sendar í viðkomandi söluskála eða verslun og afgreiddar þaðan. Hver fær sinn skammt og er hann merktur einstaklingum. Það sem ég á við er að þetta liggur í afgreiðsluborðinu í pappakössum og við vitum svo sem ekkert hvers konar lyf þetta eru. Það gæti einhver viljað taka þetta. Mér finnst það ekki beint bera vitni um öryggi í lyfjaafgreiðslu að hafa þetta svona og eðlilegt væri að lyfsalar gengju þannig frá því þegar þeir eru með afhendingarstaði annars staðar en í lyfjaverslunum, að þá sé a.m.k. um einhvers konar skápa, öryggisgeymslu að ræða þar sem lyf eru afhent. Auðvitað veit ég að afgreiðslufólk reynir að passa upp á lyf. En það þarf bara að gera margt annað þegar þetta er afgreitt í matvöruverslunum og í söluskálum. Þetta er ekkert nýtt. Þetta hefur verið svona í mörg ár. Þetta er sú lyfjaafgreiðsla sem ég t.d. þekki best úr heimabyggð minni.