Verslunaratvinna

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 20:42:58 (5958)

2002-03-11 20:42:58# 127. lþ. 94.16 fundur 607. mál: #A verslunaratvinna# (fylgiréttargjald, bifreiðasölur) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[20:42]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, með síðari breytingum.

Aðalmarkmiðið með frv. var upphaflega að stuðla að betri skilum á fylgiréttargjaldi skv. 6. mgr. 23. gr. laganna vegna sölu á listmunauppboðum.

Fylgiréttargjald er einnig lagt á endursölu listmuna í atvinnuskyni. Nauðsynlegt hefur verið talið að kveða á um skilagreinar og refsingu í höfundarlögum þar eð misbrestur hefur orðið á því að fylgiréttargjaldi sé skilað. Rétt þykir að gæta samræmis í lögum um verslunaratvinnu að því er varðar skilagreinar og refsingar vegna sölu listmuna á listmunauppboðum enda sama nauðsyn fyrir hendi þar.

Ákveðið var að nota tækifærið til að gera einnig aðrar breytingar á lögunum. Þær breytingar fela fyrst og fremst í sér að lögreglustjórar skuli veita leyfi til að reka verslun eða umboðssölu með notuð ökutæki í umdæmi sínu, svo sem áður var, í stað viðskiptaráðherra og halda þá jafnframt skrá yfir leyfishafa í umdæmum sínum. Jafnframt geti leyfisveitendur, þ.e. lögreglustjórarnir, svipt leyfishafa starfsleyfi sínu. Ákvörðun um sviptingu starfsleyfis má skjóta til viðskiptaráðuneytis eða dómstóla. Þá er kveðið á um að í refsimáli megi krefjast sviptingar leyfis til sölu notaðra ökutækja í samræmi við 68. gr. almennra hegningarlaga. Ástæða breytingarinnar varðandi leyfisveitingar er einkum sú að samkvæmt 19. gr. laganna er lögreglustjórum falið eftirlit með starfsemi bifreiðasala hverjum í sínu umdæmi og jafnframt að gera tillögur til viðskrh. um sviptingu leyfa ef aðili fullnægir ekki skilyrðum laganna um starfsemi sína.

Ég tel eðlilegast að leyfisveiting og eftirlit sé á hendi sama aðila, enda tryggi það betri þjónustu við umsækjendur um leyfi, leiði til markvissara eftirlits og yfirsýnar hjá eftirlitsaðilum og minnkar óþarfa skriffinnsku milli leyfisveitanda og eftirlitsaðila.

[20:45]

Í lokin má nefna að slík tilhögun er enn fremur til þess fallin að styrkja starfsemi lögreglustjóraembætta, einkum utan Reykjavíkur.

Loks er gert ráð fyrir breytingum á hugtakanotkun varðandi skráningaraðila fyrir nákvæmnisakir.

Þegar litið er á einstakar greinar frv. sést að 1.--4. gr. auk 10. gr. fjalla um skráningaraðila. 5.--10. gr. fjalla um leyfi lögreglustjóra til sölu notaðra ökutækja, skilyrði fyrir veitingu leyfis, sviptingu leyfis og skrá yfir leyfishafa. Í 8. gr. er fjallað um skyldur til að senda skilagreinar vegna listmunauppboða og viðurlög ef út af er brugðið, svo og um það að lögreglustjóri veiti leyfi til að halda lokuð uppboð í því skyni að styrkja viðurkennt líknarstarf og kirkjustarf, menntun, vísindi og menningu. Í 9. gr. frv. er fjallað um málsmeðferð og viðurlög og felur hún í sér nokkrar breytingar. Í 11. gr. er síðan gildistökuákvæði.

Í athugasemdum við frv. kemur fram að því er varðar 1.--4. gr. og 10. gr. frv. að þar er kveðið nákvæmar á um en áður hvaða aðilar skrái verslun.

Varðandi 5. gr. eru tillögur um að flytja veitingu leyfa, sviptingu leyfa og skrá um leyfishafa frá viðskrh. til lögreglustjóra þar eð slíkt er að fenginni reynslu talið eiga betur heima hjá lögreglustjórum sem fara með eftirlit með sölu notaðra ökutækja hver í sínu umdæmi og þá tillögur um sviptingu leyfa. Þjónusta varðandi leyfisveitingar verður með öðrum orðum í heimahéraði umsækjanda, þar sem hin fasta starfsstöð bifreiðasölunnar er. Þetta tryggir eins og ég hef áður sagt betri þjónustu við umsækjendur um leyfi og leiðir til markvissara eftirlits og yfirsýnar hjá eftirlitsaðilum.

Þá er í 5. gr. frv. lagt til að heimild til að leggja inn útgefið leyfi til sölu notaðra ökutækja verði fellt niður og er það einnig gert að fenginni reynslu. Sama gildir um það ákvæði að leyfisveitandi staðfesti uppsögn starfsábyrgðartryggingar. Ákvæðið hefur þótt íþyngjandi og lítt raunhæft. Þessu er nánar lýst í frv.

Taka má fram að í 7. gr. er kveðið á um að skjóta megi úrskurði lögreglustjóra um sviptingu starfsleyfis til viðskrh. eða leita til dómstóla.

Í 8. gr. er kveðið skýrt á um að lögreglustjóri geti veitt leyfi til að halda lokað uppboð til að styrkja viðurkennt líknarstarf og kirkjustarf, menntun, vísindi og menningu. Er talið rétt að leyfi þurfi til að halda slík uppboð til að unnt sé að vekja sérstaka athygli á sérákvæðum laganna varðandi uppboð og reglur um fylgiréttargjald, þannig að tryggja megi betri skil á gjaldinu.

Varðandi heimild menntmrh. til að setja nánari reglur um fylgiréttargjald er í frv. tekið fram að í reglunum megi kveða á um viðurlög við brotum á þeim með stuðningi í lögum um verslunaratvinnu. Er þar vísað sérstaklega í 24. gr. laganna sem tilgreinir viðurlög.

Til samræmis við höfundarlögin er kveðið á um það í 8. gr. að uppboðsstjórar skuli senda skilagreinar um sölu listmuna ársfjórðungslega. Jafnframt þykir rétt að kveða á um að tilkynning til innheimtuaðila um að viðkomandi hafi hætt slíkum uppboðum leysi viðkomandi aðila undan þeirri skyldu að senda skilagreinar með þessum reglubundna hætti.

Taka má fram að við upptöku 10% fylgiréttargjalds á sínum tíma var felldur niður 24,5% söluskattur en síðar 22% virðisaukaskattur vegna sölu á listmunauppboðum. Hefur verð til kaupandans þannig lækkað til muna þótt til fylgiréttargjaldsins hafi komið. Gerir þetta enn eðlilegra en ella að fylgst sé vel með innheimtu fylgiréttargjaldsins vegna sölu á listmunauppboðum.

Í 9. gr. frv. er 24. gr. laganna umskrifuð og gerðar vissar breytingar á ákvæðum um viðurlög. Aðalbreytingin snertir 2. mgr. 24. gr. laganna. Ákvæði um refsingu fyrir vanrækslu á tilkynningu eru færð til samræmis við löggjöf um hlutafélög, einkahlutafélög og samvinnufélög og breytingar gerðar vegna niðurfellingar varðhalds sem refsingar hér á landi. Í stað varðhalds kemur með öðrum orðum eins árs fangelsi. Þá er það nýmæli að gert er ráð fyrir sömu refsingu vegna brota á ákvæðum IV. kafla um sölu notaðra ökutækja. Kveðið er á um að gera þurfi kröfu um að verslun verði afmáð úr skrá í refsimáli en slíkt kemur ekki fram í lagagreininni nú. Þá er ekki einungis kveðið á um að fremja þurfi ítrekað brot heldur einnig alvarlegt brot. Enn gildir að aðilar þurfa að fullnægja skilyrðum laganna, t.d. að þeir séu fjár síns ráðandi. Í greininni er það nýmæli að kveða má á um það í refsimáli gegn aðila, sem hefur leyfi til sölu notaðra ökutækja samkvæmt IV. kafla laganna, að heimilt sé að krefjast sviptingar leyfis til sölunnar í samræmi við ákvæði 68. gr. almennra hegningarlaga. Þetta er lagt til vegna ábendingar frá embætti ríkissaksóknara.

Ákvæðin um sviptingu leyfis af hálfu leyfisveitanda standa áfram.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að málinu verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.