Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 21:15:04 (5962)

2002-03-11 21:15:04# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., LB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[21:15]

Lúðvík Bergvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það má svo sem færa góð og gild rök fyrir því að hugsanlega hefði mátt koma einhverjum tilmælum fram fyrr. Hins vegar vitum við aldrei hvernig umræðan þróast og þegar svona mörg mál eru á dagskrá sjáum við ekki fyrir hvernig þetta muni æxlast. Veruleikinn er nú sá, ef við bara lítum yfir veturinn, að þessi hlutafélagaumræða öll er orðin mjög skrýtin og hefur tekið mikinn tíma í þinginu. Menn hafa rætt heilu dagana til að mynda um upplýsingarétt þingmanna og sitt lítið af hverju sem þessu tengist.

Virðulegi forseti. Ég held líka að vegna eðlis 1. umr. sem er fyrst og fremst ætlað að draga fram meginlínurnar, væri mjög mikilvægt að forustumenn ríkisstjórnarinnar, þá sérstaklega forsrh. í þessu tilviki, sætu hér, hlýddu á umræðuna og tækju þátt í henni og skýrðu ýmislegt og þá ekki síst í ljósi þeirrar stefnubreytingar sem komið hefur fram og virðist, a.m.k. að því er varðar Símann, felast í því að einstakir ráðherrar eigi ekki að fara með hlutabréf í fyrirtækjum sem undir þá heyra þegar þeir eru líka um leið hugsanlega að setja reglur sem gilda á því tiltekna samkeppnissviði sem viðkomandi fyrirtæki er ætlað að starfa á.

Ég viðurkenni að kannski hefði verið við hæfi að biðja um þetta aðeins fyrr. En um leið vil ég nefna það að við vitum aldrei hvernig umræðan þróast. Við vorum ekkert viss um að þau mál sem voru á dagskránni í dag mundu ganga svo greiðlega fyrir sig að við kæmumst svona langt í dagskránni. Ég vil því taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og óska eftir því að þessir hæstv. ráðherrar verði viðstaddir.