Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 21:19:50 (5964)

2002-03-11 21:19:50# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[21:19]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér var tjáð í dag að reikna mætti með kvöldfundi. Ég er í sjálfu sér ekki að gera athugasemdir við að hér sé fundað eitthvað fram eftir kvöldinu. Hitt vakti athygli mína að hæstv. forseti tók þannig til orða að eðlilegt hefði verið að koma óskum um viðveru annarra ráðherra en hæstv. viðskrh. á framfæri fyrr. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. forseta: Felst í þessu orðalagi að óeðlilegt sé að koma með slíka ósk nú? Ber að gagnálykta af þessum orðum hæstv. forseta? Ég vona ekki. Ég veit ekki betur samkvæmt þeim þingsköpum sem ég hef lært en að ráðherrar og þingmenn, t.d. 1. þm. Reykv., hafi þingskyldur eins og aðrir menn. Það eru nýir hlutir fyrir mér ef það er eitthvað óeðlilegt við það og eitthvað athugavert við það að fara fram á að menn séu hér viðstaddir og sinni sínum þingskyldum, nema þeir hafi lögmæt og boðuð forföll. Ég ætla að vona að þetta sé ekki að þróast út á þá braut að forsetar þingsins mæli því beinlínis bót að menn séu fjarstaddir og ekki til staðar á fundum og að ráðherrabekkirnir séu galtómir þegar rædd eru hér hin mikilverðustu mál.

Þegar óskir af þessu tagi koma fram, hvenær sem þær koma fram í umræðunni, herra forseti, þá er ég þeirrar skoðunar að líta beri á efni máls og hvort sú ósk sé rökstudd og sanngjörn og flutt eðlilega fram og hvort fyrir henni standi efni. Svo tel ég að sé í þessu tilviki. Það eru ekki smámál þegar menn eru að henda á milli sín eignarhaldi í verðmætum ríkisfyrirtækjum. Það er ekki eins og það ætti að koma hæstv. forseta eða stjórnarliðum á óvart þó að ólga sé í þjóðfélaginu um þau mál og hvernig til hefur tekist.

Herra forseti. Að lokum endurtek ég það að ég ætla ekki að biðjast afsökunar á því að ætlast til þess að menn séu hér viðstaddir og sinni þingskyldum. Þau bráðum nítján ár sem ég hef verið hér hef ég reynt að leggja mig fram um að vera hér og sinna starfi mínu. Ég fæ fyrir það u.þ.b. það sama og nýskipaður stjórnarformaður Landssímans fær fyrir að mæta á einn til tvo stjórnarfundi á mánuði, eða tæpt þingfararkaup. Ég er ekkert að kvarta undan því, herra forseti. En ég ætlast til þess að menn vinni hér vinnuna sína. Ég endurtek að óskir mínar voru settar fram, að ég taldi, af hógværð. Þær voru rökstuddar og ég get fært frekari rök fyrir þeim, ef hæstv. forseti vill heyra þau. Ég vona að ekki hafi borið að skilja tóninn eða orðavalið hjá hæstv. forseta þannig hér áðan að honum þætti það eitthvað óefnislegt, óviðeigandi eða ekki við hæfi að fara fram á, ef því yrði við komið, að ráðherrar yrðu viðstaddir, hæstv. forsrh. eða aðrir sem færa má fullgild rök fyrir að æskilegt væri að hafa hér við þessa umræðu þannig að hægt væri að leggja fyrir þá spurningar og að þeir svöruðu til um stefnu ríkisstjórnarinnar og viðhorf sín gagnvart eignarhaldi á þessum ríkisfyrirtækjum og hvernig með skyldi farið. Ég vona að forseti sé (Forseti hringir.) ekki að amast við því að slíkar óskir komi fram. Frekar ætti maður von á og mundi ... (Forseti hringir.) um hitt, að forseti tæki undir slíkar (Forseti hringir.) sanngjarnar óskir.