Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 21:23:37 (5966)

2002-03-11 21:23:37# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., iðnrh. (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[21:23]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Eins og forseti hefur greint frá og allir hv. þm. vita ákaflega vel þá fer iðnrh. með þennan málaflokk og hefur fullt forræði á því máli sem hér er til umfjöllunar. En eflaust er freistandi fyrir hv. þm. að tengja þetta mál öðrum málum og þá kannski sérstaklega málum sem varða allt annað fyrirtæki, þ.e. Landssímann. En ég held að það hljóti að gefast tækifæri til að ræða það mál, annaðhvort utan dagskrár eða við annað tækifæri. Hér erum við ekki að tala um jafnróttækt mál, finnst mér, eins og ýmsir hv. þm. vilja vera láta. Hv. þm. Jón Bjarnason telur t.d. að hann þurfi að tala við landbrh. í tengslum við þetta mál. Það finnst mér ekki vera á rökum reist vegna þess að ekki er verið að tala um að svipta sveitir landsins rafmagni eða neitt slíkt. Það er einmitt verið að reyna að koma þeim málum í betri farveg sem varða dreifingu rafmagns í hinum dreifðustu byggðum. Ég vonast því til þess að hv. þingmenn taki það eins og það er að sú sem hér stendur fer með þennan málaflokk.