Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 21:25:13 (5967)

2002-03-11 21:25:13# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[21:25]

Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hæstv. iðnrh. minnti á að hún færi með þennan málaflokk og vill greinilega tala fyrir ríkisstjórnina alla og stjórnarflokkana í málinu. Samt hefur hæstv. ráðherra ekki uppfyllt þær skyldur sem ég tel að hún hafi, þ.e. að gera þinginu grein fyrir heildarstefnumörkun hvað þessi mál varðar. Það vantar mjög upp á að það sé í raun hægt að ræða um það mál sem hér liggur fyrir öðruvísi en í samhengi við bæði raforkulagafrv. og hvað menn ætla sér með þessum málum öllum. Eignarhaldið á Landsvirkjun og eignarhaldið á Rarik eru hlutir sem þarf að fara hér yfir. Það er ótrúlegt að þurfa að taka þátt í umræðum á hv. Alþingi þar sem ríkisstjórnarflokkarnir koma með stór mál til umræðu en voga sér að hafa það þannig að ekki er minnst einu orði á það sem mestu máli skiptir, þ.e. hvernig menn ætla sér að fylgja þessum málum fram. Er meiningin t.d. að Reykjavíkurborg haldi áfram að eiga 45% í Landsvirkjun í samkeppnisumhverfi framtíðarinnar á raforkusviðinu og eiga orkufyrirtæki sitt, Orkuveitu Reykjavíkur? Er það meiningin? Það hefur ekki verið minnst einu orði á það hvernig þessir hlutir eru hugsaðir. Verður einhver eðlileg samkeppni á þessum markaði með þessa risa þarna?

(Forseti (GuðjG): Forseti minnir hv. þm. á að hann fékk orðið til að ræða fundarstjórn forseta.)

Já, hæstv. forseti. Mér finnst full ástæða til þess að nefna þetta hér vegna þess að ég tel þetta vera rökstuðning fyrir því að þetta mál sé ekki nothæft til umræðunnar. Mér finnst hreinlega að hægt þurfi að vera að fara hér yfir þessi mál í heild og að það eigi að leggja þau þannig fram til umræðu og fylgja þeim þannig úr hlaði og að menn eigi að koma fram fyrir hönd ríkisstjórnarflokkanna með einhverja heildstæða stefnu sem hægt er að tala um. Það sem ég er að halda fram og ætla að segja er að mér finnst að fresta eigi þessu máli og taka það ekki á dagskrá fyrr en menn eru tilbúnir til þess að tala um málið í heild og segja frá því hvað þeir ætli sér með þessu öllu saman. Þar fyrir utan er líka ástæða til þess að menn sýni fram á hvernig þeir geri þá breytingar á lögum um þau hlutafélög sem hér eru á ferðinni, í kjölfar þeirra mála sem hafa komið upp upp á síðkastið þar sem hvert klúðrið hefur rekið annað. Ætla menn bara að halda áfram á sömu brautinni, búa bara til sömu vandamálin? Ætlar hæstv. iðnrh. að stíga í spor samgrh.? Er það hlutverk sem hana langar til að taka að sér?