Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 21:42:14 (5975)

2002-03-11 21:42:14# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[21:42]

Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mér finnst rétt að spyrja enn einu sinni hæstv. forseta hvort hann geti ekki með einhverju móti tryggt betri viðveru ráðherra í salnum í kvöld. Það er a.m.k. tilraunarinnar virði að vita hvort við fáum svör við því.

Ég verð að segja alveg eins og er að varla getur hæstv. iðnrh. annað en meðgengið það að í ríkisstjórninni hafi orðið til einhver stefna sem hún hafi ekki treyst sér til að koma með til umræðu í þinginu þó að ég efist ekki um að hún fari með málið eins og hún hefur margsagt í kvöld.

Ég verð að endurtaka að ég tel ekki hægt að ræða þessi mál af neinu viti öðruvísi en í samhengi. Hv. Alþingi þarf að vita hvað ríkisstjórnin ætlar sér í þessum málum öllum saman. Mér finnst óhafandi að ekki skuli vera hægt að fá svör við því hvort einhver stefna er orðin til, t.d. um eignarhaldið og hver eigi að fara með það, eftir að hæstv. samgrh. lýsti því yfir að hann teldi eðlilegt að eignarhaldið á Símanum yrði fært til fjmrh. Er þetta þá prívatskoðun hjá honum, eða hefur ríkisstjórnin rætt málið? Eigum við kannski von á breytingum hvað þetta varðar? Ekki er það að sjá í þessu frv. En ég sé fulla ástæðu til að spyrja eftir þessu og mér finnst einhvern veginn að of mikið hafi gengið á undanfarna daga til þess að menn geti komið hér án þess að meðganga að taka þurfi á hlutum eins og þessum.

Mér finnst líka að hæstv. forseti --- enn einu sinni ætla ég um það að spyrja --- eigi að upplýsa okkur um það, skýrt og klárt, hvort hann treysti sér ekki til þess með einhverju móti að tryggja viðveru ráðherra í salnum til að ræða þessi mál og taka þátt í þeim umræðum sem eru hér. Mér finnst líka að ef hæstv. ráðherra ætlar virkilega að gera það sem hæstv. forseti var að segja að hann mundi gera, þ.e. að tala um þessi atriði sem ég var að nefna, þurfi það að gerast í umræðunni núna en ekki einhvern tímann í einhverri lokaræðu þannig að hægt sé að hlusta á það, taka tillit til þess, svara því og spyrja frekar ef þingmenn telja þess þörf.