Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 21:45:51 (5977)

2002-03-11 21:45:51# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[21:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með að svo lítið er gert með þær óskir okkar sem settar hafa verið fram í umræðum undir liðnum um fundarstjórn forseta að hæstv. ráðherrar yrðu viðstaddir umræðuna eða henni yrði frestað ella. Mér fannst hæstv. forseti bregðast heldur seint við þó vottað hafi fyrir viðleitni loksins í því að farið var í að athuga hvar hæstv. ráðherrar væru niður komnir en umræðunni engu að síður haldið áfram án þess að þeir væru mættir hér til leiks eða upplýsingar veittar um það hvort þeir væru væntanlegir. Sá sem hér talar t.d. er að nota seinni ræðurétt sinn í þessari umræðu og augljóst að af mér er þá tekinn rétturinn til að ræða við þessa hæstv. ráðherra um málið. Mér þykir það miður, en hef ekki um þetta fleiri orð en verð að játa að ég hefði talið að hæstv. forseti hefði haft efni á því að taka betur í vel rökstuddar óskir sem hér voru fram settar og mér fannst hæstv. forseti gera óþarflega lítið með þær.

Í fyrsta lagi, herra forseti, ætla ég að nefna að það skiptir auðvitað miklu máli hvað í vændum er með fyrirkomulag þeirra hluta sem lúta að hlutafélögum í eigu ríkisins, alfarið eða að meiri hluta. Ég held að öllum sé ljóst sem hafa fylgst með þessu ferli undanfarin nokkur ár, og frá því einkavæðingarfaraldurinn skall á af fullum þunga hér á landi upp úr 1990, að við höfum ekki staðið að málum eins og skynsamlegast væri. Enda vantar mikið upp á að t.d. ábendingum Ríkisendurskoðunar, ítrekuðum ábendingum Ríkisendurskoðunar um verklag í þessum efnum hafi verið fylgt. Svo snemma sem 1994 skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu, úttekt á einkavæðingunni sem þá hafði farið fram nokkur undangengin ár, og gagnrýndi að ekki hefðu verið sett lög eða a.m.k. mótaðar skýrar verklagsreglur í þessum efnum og framkvæmdin væri samræmd. Síðan hefur ekkert verið að gert. Niðurstaðan er sú að það hefur verið geðþóttakennt og tilviljanakennt hvernig með þessa hluti er farið.

Hér er gert ráð fyrir að hæstv. iðnrh., fagráðherra viðkomandi málaflokks, fari með eignarhaldið í hlutafélagavæddu raforkufyrirtæki. Samt er verið að undirbúa og boða samkeppni á markaði á þessu sviði. Er það þá gott fyrirkomulag að hæstv. iðnrh. sé eigandi eins af fyrirtækjunum sem keppa á markaði og svo sé hann jafnframt yfirmaður málaflokksins og fari með víðtækt og mikilvægt vald á þessu sviði? Mér finnst koma mjög vel til greina, m.a. af þessum sökum og af ýmsum fleiri sökum, að eignarhald á fyrirtækjum í eigu ríkisins sem búið er að breyta í hlutafélög verði fært saman undir fjmrh. Ég hygg að það væri einna best komið þar.

Hér vantar löggjöf um meðferð slíkra mála, bæði hvernig skuli farið með hlutafélög sem eru alfarið eða að meiri hluta í eigu ríkisins, hvernig á að kjósa þeim stjórnir og hvernig á að hafa þessa hluti að öðru leyti. Eitt af því sem kæmi til greina í því sambandi væri að setja sérlög og það hefur oft verið nefnt sem möguleiki, að setja sérlög sem væru þá lagarammi um slík fyrirtæki sem gilti alls staðar, tryggði samræmda meðferð, og þar væru ákvæði inni sem t.d. mæltu fyrir um það hvernig stjórnir skyldu skipaðar o.s.frv.

Annar möguleiki væri sá að stofna eignarhaldsfyrirtæki. Sums staðar hefur verið valin sú leið að stofnað er eignarhaldsfyrirtæki sem fer síðan með eignina í einstökum ríkisfyrirtækjum sem eru hlutafélagavædd eða eru á markaði. Þetta hafa sumar ríkisstjórnir eða sum lönd gert þar sem miklar breytingar hafa verið að eiga sér stað vegna breyttra stjórnmálaaðstæðna eins og í Austur-Þýskalandi svo dæmi sé tekið. Þetta hefur líka verið gert á Vesturlöndum, einfaldlega til þess að búa með skynsamlegum og formlegum hætti um þetta eignarhald ríkisins og skapa ákveðna fjarlægð og færa þetta meira til samræmis við það sem væri á markaði þegar ríkisfyrirtæki eiga í hlut.

Síðan, herra forseti, tek ég undir það sem hér hefur verið sagt. Það er auðvitað alveg yfirgengilegt að frv. um að breyta Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag og búa þar með í haginn fyrir væntanlega einkavæðingu þess fyrirtækis, sem ævinlega hefur fylgt í kjölfarið á slíkum breytingum, skuli hent hér inn við þær aðstæður að ekkert bólar á frv. til laga um nýskipan orkumála og við þær ævintýralegu aðstæður í sögu einkavæðingar og ríkisrekstrar í landinu sem við erum að upplifa þessa dagana og vikurnar. Maður spyr sig í forundran hvað valdi slíkri tímasetningu. Var iðnrn. ekki tilbúið með þetta mikla frv., þessi ósköp, fyrr en núna, eða er þetta bara til þess að skemmta sér að henda þessu inn í andrúmsloftið akkúrat eins og það er í dag? Það má spyrja sig hvort mönnum hafi fundist það vel til fallið að henda hérna inn frv. til laga um að breyta Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag akkúrat ofan í Landssímann og annað sem hefur verið að gerast. Spyr sá sem ekki veit. Vegir ríkisstjórnarinnar eru a.m.k. mér órannsakanlegir og óskiljanlegir í þessu máli, það verð ég að segja.

En einhvern tímann hefði manni dottið í hug pólitísk heimska að doka ekki við með þetta mál, fyrir utan að ég sé enga knýjandi nauðsyn á því að þetta nái endilega nú fram að ganga. Ég blæs á þær tímasetningar sem hér eru settar fram, að nokkur efnisleg rök séu fyrir því að þetta þurfi endilega að gerast svona að stofna þetta hlutafélag fyrir 1. sept. 2002 og það skuli taka til starfa um næstu áramót. Auðvitað er það út í loftið við þær aðstæður sem við búum við í þessum efnum. Sjáum a.m.k. fyrst hver lagagrundvöllur og hvert lagaumhverfi orkufyrirtækja í landinu verður á komandi árum og fáum botn í þessi mál með eignarhald á ríkisfyrirtækjum og meðferð þeirra mála í stjórnkerfinu og þá getum við farið að ræða um einstakar breytingar af þessu tagi eins og að breyta Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra úr því hér eru ekki aðrir við en hæstv. iðnrh., hvaða viðhorf séu þá uppi af hálfu hæstv. ráðherra ef færi nú samkvæmt frv. og hæstv. ráðherra fengi þá ósk sína uppfyllta að fá í hendur eitt stykki Rafmagnsveitur ríkisins hf. til að ráðskast með --- hvernig eru t.d. ákvæðin um stjórn í 6. gr. frv. hugsuð? Þar kemur ekkert fram um hversu fjölmenn stjórnin eigi að vera og þaðan af síður hvernig hæstv. ráðherra hyggst skipa hana. (Gripið fram í: Og ekki heldur launin.) Svo ekki sé nú minnst á launin.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra: Er hægt að veita einhverjar upplýsingar um þetta atriði nú? Verður þarna þriggja, fimm manna, sjö manna stjórn? Verður einhver viðleitni uppi til þess að setja hana þannig saman að aðilar t.d. af landsbyggðinni verði, fulltrúar einhverra sem við getum kallað neytendasjónarmiða í þeim efnum eða byggðasjónarmiða, eða þá að þverpólitísk skipan mála verði þarna innleidd? Má búast við því að þarna verði einhverjir herrar settir til verka og þeir fái 300.000 kr. á mánuði t.d. fyrir að vera stjórnarformenn þess fyrirtækis? Er það hagræðing sem hæstv. ráðherra sér, t.d. að láta eitt stykki stjórnarformann fá 3,6 millj. á ári fyrir að sitja þarna í stjórn og stjórna kannski um 20 tveggja tíma fundum? Á að bjóða mönnum þetta sem við erum að upplifa þessa dagana, þennan veruleikafirrta hroka sem í raun og veru lýsir sér í tillögu samgrh. á aðalfundi Landssímans í dag, að rúmlega tvöfalda þá stjórnarþóknun sem fyrir var og þótti rífleg? Setja stjórnarformann í svona fyrirtæki á rétt tæplega þingfararkaup fyrir það að sinna því í hjáverkum að vera í stjórn fyrir slíkt fyrirtæki? Mér er ekki kunnugt um að það ágæta sómafólk sem þarna var valið --- og ég tek fram að ég treysti fullkomlega og er alls góðs maklegt til að sitja í þessari stjórn, þannig að það skal enginn skilja mín orð þannig að ég sé að gagnrýna þessa einstaklinga sem slíka, en manni hlýtur auðvitað að blöskra þegar svona er á borð borið.

Hvað halda menn að almenningur hugsi nú, ofan í allt sukkið sem á undan er gengið, þegar þessar fréttir berast? Hvað eiga öryrkjar sem eiga að draga fram lífið af innan við 70.000 kr. á mánuði að hugsa, þegar menn fá þrefalda þóknun á við þeirra mánaðarframfærslulífeyri fyrir það að sitja í stjórn af þessu tagi í hjáverkum? Vill hæstv. ráðherra eitthvað sýna spilin og svara því hvernig hæstv. ráðherra hefur hugsað sér að standa að verkum í þessum efnum?

Það er ástæða til, herra forseti, að þessu sé svarað hér. Að vísu verð ég að segja að það hvarflar ekki að mér að frv. fái afgreiðslu hér á þessu þingi því það er gjörsamlega út í hött eins og í pottinn er búið. En maður verður þó að taka það alvarlega geri ég ráð fyrir þegar stjfrv. er flutt með þessum hætti og þess vegna skuldar hæstv. ráðherra okkur svör í þessum efnum og auðvitað hefðu hér átt að vera fleiri hæstv. ráðherrar sem málið er skylt.