Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 21:58:16 (5979)

2002-03-11 21:58:16# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[21:58]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta er afar áhugaverður vinkill á umræðuna og það kann vel að vera að ég hafi ekki tekið þessu eins og skynsamlegast væri, sérstaklega ekki ef hér eru að birtast okkur fyrstu skrefin af yfirvegaðri og markvissri stefnu hæstv. ríkisstjórnar, t.d. í launamálum, því það hlýtur náttúrlega að hafa sín áhrif ef hér er verið að boða nýja tíma af þessu tagi. Þetta er rúmlega tvöföldun á þóknun þessa fólks sem áður sat í stjórn Símans og það er kannski í vændum að þetta gangi yfir línuna, það kann vel að vera.

Það er líka alveg hárrétt hjá hv. þm. að stundum veit maður ekki alveg hvernig maður á að bregðast við þegar næstum að segja yfirskilvitlegir hlutir berja að dyrum hjá manni. Ég verð að segja alveg eins og er að mér eru þetta svo gjörsamlega óskiljanlegir hlutir sem þarna eru að birtast okkur að kannski þarf maður að hugsa þetta betur og klípa sig í handlegginn áður en maður eiginlega úttalar sig um þetta.

Ég verð þó að segja þangað til annað kemur í ljós, að ég er svo hvekktur á því sem hæstv. ríkisstjórn hefur staðið fyrir í þessum efnum, þó maður eigi auðvitað að trúa á hið góða í manninum, að ég gruna menn um að þetta sé nú ekki hugsað þannig t.d. að það eigi að tvöfalda upphæðir í almannatryggingakerfinu o.s.frv. í beinu framhaldi af þessari tvöföldun á stjórnarþóknun í Landssímanum. Ef það væri, þá værum við að tala hérna um merka hluti að sjálfsögðu.

Ég held að við hljótum að halda áfram að krefja hæstv. ríkisstjórn svara um hvað hérna sé virkilega á ferðinni, nema þetta sé orðið þannig sem líka læðist nú stundum að manni að ríkisstjórnin sé í rauninni að sanna það í verki að hún sé ekki fjölskipað stjórnvald eins og stundum er sagt, heldur bara syngi hver með sínu nefi.