Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 22:01:48 (5981)

2002-03-11 22:01:48# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[22:01]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að þetta sjónarmið eigi alveg fullan rétt á sér og fullt erindi inn í umræðuna. Það vill svo til að hv. þm. er gamalreyndur í kjarasamningum og ber manna best skynbragð á að ákvarðanir af þessu tagi, merkjasendingar af þessu tagi út í þjóðfélagið frá hæstv. ríksstjórn hljóta auðvitað að vekja feikna athygli og hafa áhrif, það er alveg borðleggjandi.

Það sem verið er að innleiða hér og við sjáum birtast okkur í ýmsum myndum í þessum málum er hugarfarið sem býr að baki einkavæðingunni. Hvað er það sem ævinlega gerist þegar búið er að háeffa og einkavæða? Það má heita reglan að í fyrstu umferð er farið á toppana og laun þeirra stórhækkuð, rokhækkuð. Þar eru innleidd amerísk ofurforstjóralaun. Þar eru keyptir dýrir jeppar, aukið í alls konar fríðindi og reknir nokkrir sendlar í hagræðingarskyni. Þetta er eiginlega reglan. Er ekki alveg eðlilegt að menn fái svona eins og eitt stykki þingfararkaup fyrir stjórnarformennsku í svona fínum háeffuðum fyrirtækjum? (Gripið fram í.) Samgrh. hefur auðvitað sýnt að hann er á ýmsan hátt framúrstefnumaður í þessum einkavæðingarmálum, hefur afrekað margt í þeim efnum við gerð starfslokasamninga. Þetta er alveg í rökréttu framhaldi af því sem þar er á undan gengið, sporslur og ofurkjör af því tagi sem þar hafa verið ástunduð.

Það er fullkomið tilefni til að spyrja hæstv. ríkisstjórn, þetta er nátengt því sem við vorum að ræða hér fyrr í kvöld, þ.e. að forsvarsmenn hennar væru hér allir með tölu og formenn stjórnarflokkanna ekki síst, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., og stæðu hér þingi og þjóð reikningsskil á því hvert ríkisstjórnin er að fara með þessi mál. Það dugar okkur ekki að hæstv. iðnrh. sitji bara hér þögul úti í sal. Hún hefur ekki einu sinni reynt að svara hér einni einustu spurningu enn þá í umræðunni í andsvari, hvað þá annað.