Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 22:04:04 (5982)

2002-03-11 22:04:04# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., SvanJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[22:04]

Svanfríður Jónasdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Áður en hv. síðasti ræðumaður hélt ræðu sína fór fram umræða um fundarstjórn forseta. Þar fóru menn fram á það að þessari umræðu yrði frestað sakir þess að kannski fengist ekki nógu breið umræða eða umfjöllun um þau mál sem helst brenna á og eðlilegt þykir að taka til umfjöllunar af því tilefni að hér er verið að ræða frv. um háeffvæðingu Rariks.

Það var sérstaklega kallað eftir því þá að hæstv. iðnrh. gerði þeim sem hér eru þátttakendur í umræðunni grein fyrir viðhorfum ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sem væntanlega er hér staddur sem þingflokksformaður Sjálfstfl., kom í ræðustól og fullyrti að hér þyrftu þingmenn engu að kvíða því auðvitað mundi hæstv. iðnrh. gera grein fyrir þeim málum sem eftir væri kallað.

Ég spyr þess vegna, herra forseti, af því röðin er komin að mér að halda fyrri ræðu mína, hvort hæstv. iðnrh. hyggist ekki með neinum hætti blanda sér í þessa umræðu eins og eftir hefur verið óskað og raunar verið fullyrt af hálfu fulltrúa Sjálfstfl. hér í kvöld. Mun hún ekki gera okkur grein fyrir því hvaða stefna hefur verið mótuð varðandi raforkumálin innan ríkisstjórnarinnar? Mun hún ekki gera okkur grein fyrir því í hvaða samhengi ætti að ræða þetta mál? Gerir hún sér ekki grein fyrir því að það er full þörf á að ræða þessi mál með öðrum hætti en verið hefði vegna frétta sem bárust hér í kvöld? Þingmenn eru gáttaðir og reiðir --- ekki bara þingmenn, heldur tala þeir fyrir stærstan hluta þjóðarinnar sem veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið.

Verður því trúað, herra forseti, að hæstv. iðnrh. sé svo veruleikafirrt að henni komi ekki til hugar að hér sé í fullri alvöru kallað eftir umfjöllun um stefnumótunina, um það sem að baki býr og hvert ríkisstjórnin stefnir?

Ég óska eftir því, herra forseti, að hæstv. iðnrh. geri okkur grein fyrir þessum málum áður en umræðan heldur áfram.