Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 22:12:03 (5988)

2002-03-11 22:12:03# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[22:12]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Eins og fram kemur í 3. gr. frv. fer iðnrh. með eignarhlut ríkisins í hlutafélaginu sem talað er um að stofna til.

Hvað varðar Landssíma Íslands, sem hér hefur komið til umfjöllunar, er það algjörlega ótengt mál. Kannski er hægt að virða hv. þingmönnum það til vorkunnar að þeir vilji blanda því inn í þessa umræðu en það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um, að ég best veit, að gerð verði breyting á hvað það varðar. Eins og allir vita þá fer hæstv. samgrh. með eignarhlut ríkisins í því fyrirtæki. Ég sé ekki að því verði breytt öðruvísi en með lögum en það er þá seinni tíma mál ef svo verður.

Ég tel að hv. þingmenn hafi gert meira úr því en efni standa til að þetta einstaka frv. sem hér er til umfjöllunar sé svo tengt þeim breytingum sem nú eru í undirbúningi í tengslum við raforkumálin í landinu og ógerlegt sé að ræða það sem einstakt þingmál, burt séð frá því í hvaða búningi frv. til nýrra raforkulaga verður. Það er ekki svo að þessi breyting sé fyrst og fremst gerð út af þeim breytingum er lögð til á rekstrarformi Rafmagnsveitna ríkisins, sem hér er kveðið á um. Það er ekki þannig. Þessi tvö mál eru ekki nátengd í raun. Eins og ég greindi frá áðan mun frv. til nýrra raforkulaga vonandi verða hér til umfjöllunar fyrir páska. Ég vonast svo sannarlega til að það fái góðar viðtökur og hv. þingmenn hafi haft tíma til að kynna sér það frv. sem dreift var í vor.

Ég hyggst nú svara nokkrum spurningum sem komið hafa fram í umræðunni. Í fyrsta lagi þeim sem komu fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni varðandi viðhorfin til stjórnar þessa nýja hlutafélags sem vonandi verður myndað. Í dag er sjö manna stjórn í Rarik og hvort stjórnin verður sjö manna áfram hefur ekki verið tekin ákvörðun um. Mér finnst ekki ólíklegt að það yrði fimm manna stjórn í þessu fyrirtæki og tel að ágætt væri að skipa hana á þann hátt. Að sjálfsögðu verða stjórnarmenn ekki síður af landsbyggð en er nú. Ég held þeir séu nánast allir af landsbyggðinni eins og málum er skipað í dag. Ég tel það eðlilegt þar sem þetta fyrirtæki þjónar eingöngu landsbyggðinni. Það þjónar ekki höfuðborgarsvæðinu.

[22:15]

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði mikið úr því að erfitt væri að skilgreina verksvið stjórnar og svo aftur verksvið eigandans. Ég er ekki sammála þessu. Mér finnst að þessar línur liggi mjög ljósar fyrir og tel ekki að komið hafi til verulegra árekstra í þeim fyrirtækjum þar sem ég fer með eignarhlut í sambandi við þetta atriði. Það er ljóst að ráðherra sem fer með eignarhlut í fyrirtæki stjórnar ekki fyrirtækinu á milli aðalfunda og það er aðalatriðið.

Í sambandi við upplýsingar ég hef rekið mig á að hv. þm. er dálítið kröfuhörð í sambandi við upplýsingar og gengur stundum --- hún er nú ekki stödd hér í salnum, nei, --- lengra en er kannski eðlilegt og er samkvæmt lögum þegar hún biður um upplýsingar um ýmis fyrirtæki og jafnvel fyrirtæki sem eru á markaði. Ég hef a.m.k. stundum þurft að hafna því að svara þeim fyrirspurnum sem hún hefur lagt fram vegna þess að það hefur ekki verið talið eðlilegt þegar litið er til þess að um fyrirtæki sem skráð eru á markaði gilda sérstök lög og sérstakar reglur og það er ekkert hægt að horfa fram hjá því.

Það var haft samráð við starfsmenn við gerð þessa frv. og það að frv. kemur fram núna er einfaldlega af því að það var tilbúið núna. Við höfum ýmsum verkefnum að sinna í iðnrn. eins og allir hljóta að gera sér grein fyrir. Ýmis mál hefðu mátt koma fyrr fram en raun ber vitni, en ekki var við það ráðið því miður. Þingið er frekar stutt og þess vegna er þetta, skal ég alveg viðurkenna, svona með seinni skipunum.

Það að gætt sé almennra arðsemissjónarmiða í sambandi við þetta fyrirtæki er í samræmi við það umhverfi sem við erum að fara inn í og gjaldskrá verður þannig ákveðin að gert er ráð fyrir ákveðinni arðsemi af rekstrinum og til þess er tekið tillit þegar gjaldskrá er ákveðin. Þess vegna er þetta tekið fram hér með beinum orðum í frv.

Um það í hvaða búningi það frv. mun birtast sem mun hugsanlega kveða á um að selja einhvern hlut í þessu fyrirtæki, þá hefur að sjálfsögðu ekki verið tekin ákvörðun um það. Fjárlög mundu nægja. En það má líka alveg eins leysa þetta með sérstakri löggjöf. En ég held að það geti nú ekki verið aðalatriðið. Ég held að aðalatriðið hljóti að vera að málið fái umfjöllun á hv. Alþingi áður en til þeirra breytinga kemur.

Hér hefur verið fjallað um að gert sé ráð fyrir arðgreiðslum á árinu 2002 og er það að sjálfsögðu í samræmi við það að miðað við frv. þá verður því ekki breytt í hlutafélag fyrr en um áramót. En þegar til framtíðar er litið er ekki verið að tala um að fyrirtækið skili arði í ríkissjóð. Það er tap á Rarik og það hefur verið tap. Þess vegna er farin sú leið að koma til móts við óarðbærar einingar í dreifikerfinu með sérstöku gjaldi sem lagt verður á samkvæmt sérstökum lögum og frv. um það er einnig væntanlegt.

Ég held að ég hafi hlaupið á því sem er sérstaklega merkt við hjá mér. En ég mun að sjálfsögðu tala aftur í umræðunni eftir því hvernig henni vindur fram.