Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 22:27:53 (5993)

2002-03-11 22:27:53# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[22:27]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég hafði ekki svarað hv. þm. Hann spurði einmitt um eign sveitarfélaganna í Rarik og þá kröfu sem komið hefur fram.

Raunin er sú að mínu mati að sveitarfélögin eiga ekkert sjálfkrafa í Rarik þó þau hafi skipt við þetta fyrirtæki. Ég held að allir hljóti að geta gert sér grein fyrir því. Hins vegar höfum við fjmrh. átt fund með fulltrúum sveitarfélaganna og hlustað á sjónarmið þeirra. Það er ekki ljóst á þessari stundu hvort formlegar viðræður muni fara fram um þetta atriði. En alla vega hefur fundur verið haldinn.

Hv. þm. sagði hérna í ræðu sinni á föstudaginn að erfitt væri að ræða þetta vegna þess að menn vissu ekki hverjir yrðu á raforkumarkaðnum. Hvernig eigum við að geta svarað því í dag hverjir verða á raforkumarkaðnum? Við skulum vonast til þess að einhver þróun verði og að einhverjir nýir aðilar geti komið inn á þennan markað. Er ekki verið að opna þetta allt saman? Það gætu komið inn nýir aðilar bæði í sambandi við vinnslu og sölu. Því væri erfitt fyrir mig að fullyrða mikið um það á þessu stigi málsins.

Hv. þm. talar mikið um Landsvirkjun og eignaraðild sveitarfélaga að því fyrirtæki með ríkinu. Ég hef sagt hér fyrr í umræðu að ég tel að það sé mál sem þurfi að skoða.

Hvað varðar laun stjórnarmanna í hinu nýja fyrirtæki þá er ég frekar nísk að eðlisfari þannig að ég held að hv. þingmenn þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að það verði neinn skandall. (SJS: Sturla er ekki nískur.)