Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 13:40:52 (6009)

2002-03-12 13:40:52# 127. lþ. 95.91 fundur 394#B greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[13:40]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Vandi Greiningarstöðvar ríkisins var ítrekað til umfjöllunar á Alþingi fyrir áramót. Sú staða sem nú er komin upp ætti því ekki að koma neinum á óvart. Nú er komið á daginn, eins og þá var fyrir spáð, að sú úrlausn sem stöðin fékk og sneri fyrst og fremst að fortíðarvanda, þeim rekstrarhalla og hala sem þar hafði myndast, var allsendis ónóg.

Félmn. Alþingis heimsótti Greiningarstöðina snemma vetrar. Ég leyfi mér að fullyrða það að engum sem kynnt hefur sér þá starfsemi sem þarna fer fram blandast hugur um hversu mikilvæg hún er. Staðreyndin er auðvitað sú að greining er forsenda þess að menn fái þjónustu og aðstoð sem lög eiga að tryggja þeim. Það er þess vegna, herra forseti, óásættanlegt að flöskuhálsinn í kerfinu sé þar, að menn verði af þjónustu og stuðningi sem þeir eiga að fá, t.d. börn og unglingar sem eiga í erfiðleikum og þurfa á aðstoð að halda, verði missirum saman af þeim lögbundna stuðningi sem ætlunin er að tryggja þeim vegna þess að vandinn er ekki greindur. Það er gersamlega óþolandi. Flöskuhálsinn í kerfinu má ekki vera þar.

Auðvitað vantar alls staðar peninga og allir telja sig þurfa meira en ég held að við hljótum að geta orðið sammála um það, herra forseti, að við ætlum ekki að halda aftur af útgjöldum, í heilbrigðis- eða velferðarkerfinu eða annars staðar við sambærilegar aðstæður, með því að fela vandann, með því að menn fái ekki vandamál sín greind þannig að þeir verði af þeim stuðningi sem þeir ættu að njóta um leið og sú greining hefði farið fram.

Þetta gengur ekki, herra forseti. Þessu sleifarlagi verður að linna.