Ástandið á spítölunum

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 13:57:51 (6015)

2002-03-12 13:57:51# 127. lþ. 95.94 fundur 397#B ástandið á spítölunum# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[13:57]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Undanfarið hafa komið neyðarköll frá starfsfólki í heilbrigðiskerfinu. Fullyrt er að mannréttindi séu brotin á sjúkrahúsum, sjúklingar liggi á göngum, skolherbergjum og salernum, stríðsástand og kreppa sé á háskólasjúkrahúsinu. Læknar benda ítrekað á að neyðarástand ríki, vinnuskilyrði séu nöturleg og þjónusta við sjúka á álagstímum langt fyrir neðan það sem eðlilegt geti talist.

Undir þetta tóku stjórnendur Landspítala í Kastljósi í fyrrakvöld en þar sagði Anna Stefánsdóttir hjúkrunarforstjóri: ,,Já, ástandið hjá okkar hefur verið óvenjuslæmt undanfarna mánuði. Gangalagnir eru daglegt brauð, komum á spítalann fjölgar og íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgar jafnt og þétt.`` Hún sér fram á áframhaldandi fjölgun og aukið álag. Lækningaforstjórinn, Jóhannes Gunnarsson, sagði í sama þætti um útlitið fram undan: ,,Í haust eða undir árslok mun rýmkast svolítið.`` Í haust eða undir árslok, og nú er miður mars --- má búast við þessu þjónustustigi næstu 8--10 mánuði? Er þetta viðunandi ástand að mati hæstv. ráðherra? Er verið að veita fullnægjandi þjónustu á spítölunum? Geta úrbætur beðið til haustsins eða jafnvel áramóta, hæstv. ráðherra?

Vinnuálag er orðið gífurlegt á spítalanum. Komum á bráðadeildir fjölgar, yfirlagnir eru viðvarandi vandamál, þ.e. mun fleiri sjúklingar eru lagðir inn á deildir en aðstaða og mannafli gera ráð fyrir. ,,Það er vitað að við þessar aðstæður, þrengsli og óviðunandi aðbúnað og örþreytt starfsfólk er meiri hætta á mistökum í starfi, og ástandið er mjög slæmt eins og er,`` sagði lækningaforstjórinn í sjónvarpinu í fyrrakvöld.

Læknir staðhæfir í grein í Morgunblaðinu á dögunum að verið sé að tefla lífi og heilsu sjúklinga í tvísýnu á álagstímum og að ekki sé hægt að halda uppi viðunandi þjónustu á spítalanum. Núverandi ástand auki stórlega hættu á mistökum við meðferð og eftirlit sjúklinga. Þetta er alvarleg staða sem ekki er hægt við að una eða líta fram hjá. Því spyr ég: Telur hæstv. ráðherra öryggismálin á sjúkrahúsinu viðunandi?

Yfir 100 manns eru á röngum stað í kerfi spítalans, þ.e. hafa lokið meðferð en komast ekki annað. Á hjartadeildinni eru 20% rúma teppt, sjúklingarnir komast ekki á öldrunardeild eða endurhæfingardeild, hjúkrunar- eða líknardeild. Þeir dvelja í rúmum sem kosta kerfið yfir 70 þús. kr. á sólarhring. Bráðveikir sjúklingar komast ekki að eða lenda á göngum. Sjö rúm voru þar á gangi fyrir nokkrum dögum.

Verið er að kæra dagmæður fyrir að vera með of mörg börn í gæslu og þeim bent á hættuna af því. Á sama tíma viðgengst þetta hjá okkur, hjá okkar opinbera háskólasjúkrahúsi, á bráðadeildum eins og hjartadeild.

Bráðarúmum hefur fækkað en bráðatilvikum fjölgar. Ástandið á geðdeildum er afleitt en þar hefur fækkun á rúmum orðið einna mest. Skurðdeildin getur ekki unnið með fullum afköstum, biðlistar standa því í stað eða lengjast þó að þeir gætu styst verulega ef fé fengist til þess. Ástand í öldrunarmálum á höfuðborgarsvæðinu er slæmt en um 300 aldraðir bíða í þörf fyrir hjúkrunarpláss, bara í Reykjavík, og þar af eru 250 í brýnni þörf. Rúm á sjúkrahótelum eru allt of fá og heimaþjónustan er á brauðfótum, segir lækningaforstjórinn. Þetta ástand kemur í veg fyrir útskriftir og veldur algerum flöskuhálsi í starfsemi spítalans.

Hvernig munu stjórnvöld bregðast við þessu ástandi? Hvernig og hvenær hyggst ráðherra leysa þann útskriftarvanda sem sjúkrahúsið býr við? Verður opnuð hjúkrunardeild á Vífilsstaðaspítala eins og talað er um? Hvenær má búast við að ástandið skáni? Mönnum ber saman um að hluti vandans sé sú sparnaðarkrafa sem gerð er til spítalans á sama tíma og sameiningin er í fullum gangi, sameining sem mun án efa skila hagræðingu en hún er kostnaðarsöm á meðan hún stendur yfir. 800 millj. kr. sparnaðarkrafa á þessum tímum er því allsendis óraunhæf.

Það er alveg ljóst að við þessu ófremdarástandi á Landspítala verður að bregðast skjótt. Landspítalinn verður að taka við öllum og getur ekki vísað annað. Það er orðið alvarlegt þegar læknar telja sér ekki gert kleift að standa við læknaeiðinn vegna ástandsins. Við verðum að standa vörð um heilbrigðisþjónustuna og tryggja að hún standi undir nafni sem góð þjónusta. Ábyrgð stjórnvalda og hæstv. ráðherra er mikil í þessu máli og spyr ég því að síðustu: Hversu miklar fjárveitingar þarf til að leysa þennan vanda, og mun hann tryggja það fjármagn og/eða falla frá sparnaðarkröfum sínum?