Ástandið á spítölunum

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 14:10:51 (6018)

2002-03-12 14:10:51# 127. lþ. 95.94 fundur 397#B ástandið á spítölunum# (umræður utan dagskrár), LMR
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[14:10]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Við erum sammála um að ástand á sjúkrahúsum með nokkur sjúkrarúm að jafnaði, staðsett á spítalagöngum, sé algerlega óviðunandi, einkum og sérlega ef slíkt er langvarandi eða viðvarandi ástand. Landspítali -- háskólasjúkrahús er í mjög erfiðri aðstöðu hvað snertir húsnæðismál. Eftir sameiningu sjúkrahúsanna, sem var og er enn umdeild, hefur orðið að fara í gagngerar breytingar á byggingum sjúkrahússins. Legudeildir eru þar ekki undanskildar.

Einnig ber að hafa í huga að Landspítalinn er eina hátækni- og bráðasjúkrahúsið fyrir allt höfuðborgarsvæðið og það fullkomnasta á landsvísu. Um helmingur sjúklinga kemur af svæðum utan höfuðborgarsvæðisins. Viðgerðir og umbætur hafa krafist lokunar á nokkrum legudeildum og valda miklum erfiðleikum. Vonandi eru það tímabundnir erfiðleikar. Brýn nauðsyn er á að veita þessum framkvæmdum forgang svo þeim ljúki sem fyrst og sjúkrahúsið verði í stakk búið til að taka á móti þeim sjúklingum sem þangað leita.

Heilbrrh. hefur nú þegar bent á skort á hjúkrunarrýmum. Ég tek undir það. Ég vil hins vegar benda á að heilbrigðisþjónustan byggist fyrst og fremst á þekkingu, menntun, góðri umönnun og tæknibúnaði. Alls staðar í nágrannalöndum okkar eru miklir umbrotatímar í heilbrigðisþjónustunni til hagsbóta fyrir sjúklinga. Mjög mikilvægt er að hafa sem fjölbreyttast framboð í heilbrigðisþjónustu til að sjúkum verði sem best þjónað og metnaðarfullt mið sé tekið af framförum hverju sinni.

Niðurstaða mín, nú á þessum tímum gífurlegs álags, breytinga og umbrota, er sú að forgangur verði veittur í fjármunum til að leysa bráðaerfiðleika, að starfsfólki undir miklu álagi, með menntun og metnað á heimsmælikvarða, verði veittur skilningur, hvatning og hlúð að því að það megi sinna störfum sínum. Ljúka þarf nauðsynlegum breytingum sem fyrst og að lokum verður að veita fjármuni til framtíðaruppbyggingar á þann hagkvæma hátt sem bent hefur verið á í Ementor-skýrslunni til ráðuneytisins um valmöguleika á þróun núverandi húsnæðis Landspítalans í stað þess að forgangsraða steypuframkvæmdum árum og áratugum saman.