Ástandið á spítölunum

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 14:15:34 (6020)

2002-03-12 14:15:34# 127. lþ. 95.94 fundur 397#B ástandið á spítölunum# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[14:15]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Það er alkunn og viðurkennd staðreynd að íslensk heilbrigðisþjónusta er í hæsta gæðaflokki. Þrátt fyrir það kemur reglulega upp umræða um að ýmsu sé áfátt og margt þurfi að gera betur. Fyrir kemur að svo rammt kveður að þessum málflutningi að jaðrar við illdeilur. Slíkan málflutning grípur stjórnarandstaðan gjarnan fegins hendi og reynir að telja þjóðinni trú um að neyðarástand ríki og heilbrigðisyfirvöld séu ekki starfi sínu vaxin.

Þjónusta Landspítala -- háskólasjúkrahúss við sjúklinga er mjög góð, enda er það markmið allra að svo sé. Það hefur einkennt starfsemi Landspítala að undanförnu að unnið hefur verið að miklum skipulagsbreytingum með það að markmiði að gera góða þjónustu enn betri til framtíðar. Allar slíkar breytingar kalla á röskun á starfsemi, aðstöðu og högum þeirra sem starfa hjá sjúkrahúsinu og þeirra sem njóta þjónustunnar. Það er því mikilvægt að allir aðilar máls taki virkan þátt í að markmiðum verði náð og skilningur ríki á öllum sviðum.

Heilbrigðisyfirvöld, stjórnendur og starfsfólk Landspítala hafa á undanförnum árum lagt áherslu á að byggja starfsemi og skipulag spítalans upp á myndarlegan og markvissan hátt þannig að best þjóni hagsmunum sjúklinga í bráð og lengd.

Hæstv. heilbrrh. fór í nokkrum orðum yfir þau mál og er ástæða til að vekja sérstaka athygli á því. Það er ljóst að heilbrigðisyfirvöld hafa skýra stefnu í þessum málum þar sem litið er til framtíðar.

Þegar umræða spinnst um hin ýmsu málefni hættir mönnum oft til að beita gífuryrðum og lita umræðuna sterkum litum. Það er ástæða til að hvetja til þess að varðandi málefni heilbrigðisþjónustunnar, í þessu tilviki málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss, gæti menn hófs í umræðunni og gleymi því ekki að heilbrigðisþjónustan snýst fyrst og síðast um sjúklingana og aðstandendur þeirra. Hins vegar er málefnaleg umræða um þessi mál af hinu góða, ekki síst ef hún leiðir til þess að hágæðaheilbrigðisþjónusta verði enn betri.