Ástandið á spítölunum

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 14:17:36 (6021)

2002-03-12 14:17:36# 127. lþ. 95.94 fundur 397#B ástandið á spítölunum# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[14:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er ekki svo eins og heyra mátti á síðasta hv. ræðumanni að vandinn á spítölunum sé bara uppspuni í stjórnarandstöðunni. Ástandið talar fyrir sig sjálft, frásagnir starfsfólks, myndir sem sýna sjúkrarúm á göngum í löngum röðum segja allt sem segja þarf um þetta ástand.

Það er því miður þannig, herra forseti, að margt bendir til að sameining stóru sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki verið nægjanlega vel undirbúin og skipulögð. Reynslan annars staðar frá þar sem menn hafa hraðað sér um of í sambærilegum tilvikum er mjög slæm. Ég minni t.d. á að sameining stóru sjúkrahúsanna á Gautaborgarsvæðinu tókst svo hörmulega að hún varð að ganga til baka og það varð að hætta við þá sameiningu vegna þeirra miklu erfiðleika sem upp komu í rekstrinum og vegna þess að afköstin í kerfinu hrundu. Það er því miður margt sem bendir til þess að svipað sé upp á teningnum hér að nokkru leyti, að menn séu ósköp einfaldlega að fórna of miklu á þessu breytingaskeiði og afköstin minnki í kerfi sem þegar var drekkhlaðið fyrir, aðgerðum fækkar og rúmum fækkar á sviðum þar sem voru langir biðlistar. Það, herra forseti, nær auðvitað engri átt.

Til viðbótar bætist svo sá undirliggjandi vandi sem hér er í kerfinu, ónógt fjármagn, fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu þar sem um 20--25 þús. manns hafa bæst við á skömmum tíma án þess að afkastaaukning hafi orðið í kerfinu. Öldruðu fólki fjölgar sérstaklega, aðgerðir verða sífellt viðameiri o.s.frv. Lausnin er ekki sú að svelta sjúkrahúsin og gefa allt laust út í einkageirann. Ég minni að lokum á, herra forseti, þann möguleika að nýta betur afkastagetu sjúkrastofnana annars staðar í landinu. Það er alveg ljóst að hægt væri að nýta aðstöðu t.d. á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, í Neskaupstað, Akranesi og víðar og fjölga þar verulega aðgerðum og létta þannig þrýstingnum af kerfinu hér.