Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 14:35:02 (6028)

2002-03-12 14:35:02# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[14:35]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég geri athugasemd við þessa framsöguræðu hæstv. ráðherra. Þetta var einstaklega ómyndarleg og ræfilsleg framsaga fyrir máli sem að sjálfsögðu verðskuldar það að fyrir því sé mælt með fullnægjandi hætti. Ekki er frv. svo ítarlegt, merkilegt eða vel unnið að það tali fyrir sig sjálft. Það nær ekki að fylla eina örk, herra forseti. Ég held að gróðurverndarmál og ástandið í afréttamálum og upprekstrarmálum og öðru slíku verðskuldi meira en þetta. Ég verð því að segja það alveg eins og er að mér fannst frammistaða hæstv. ráðherra hér honum heldur til minnkunar og framsagan í raun alls ekki standa undir nafni. Ég veit ekki hvort það var vegna þess að ráðherra kom seint til fundar og hafði gleymt framsöguræðunni eða eitthvað annað hafi komið yfir hæstv. ráðherra. En ég trúi því ekki að ráðherra landbúnaðarmála sem búinn er að vera það í nokkur ár sé svo fátæklega á vegi staddur hvað varðar þekkingu á þessum málaflokki að hann geti ekki gert betur en þetta.

Hæstv. forseti. Ég vil nú bjóða hæstv. ráðherra upp á að gera aðra tilraun og mæla sómasamlega fyrir þessu frv.