Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 14:39:22 (6031)

2002-03-12 14:39:22# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[14:39]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. og reyndar þingheimur allur ræddum hér fyrir nokkrum dögum mál Landgræðslunnar og langtímaáætlun í einar þrjár, fjórar klukkustundir. Þar fór fram allmikil umræða. Vera kann að hv. þm. sem alltaf er í umræðu hér hafi gleymt því að þetta gerðist fyrir nokkrum dögum. Ég hræri þá upp í minni hans.

Sannleikurinn er sá að ítalan hefur í rauninni verið lögð af. Nú er komið ferli þar sem Landgræðslan vill frekar beita úrbótaáætlunum og miklu meira samstarfi við bændur. Það má segja um nýgerðan sauðfjársamning að hann er varðaður af slíku samkomulagi þar sem farið verður í úrbótaáætlanir í stað ítölu og menn vinna saman að þessum málum.

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvað forseta fannst um ræðu mína, hvort hún væri of stutt. Það kann vel að vera. Ég get hér brugðið á miklu lengri ræðu um þessi málefni ef þess verður óskað. En hv. þm. eru læsir eins og ég og hér liggur þetta frv. fyrir. Ég hygg, þar sem það er ekki langt, að þeir margir hafi nú þegar lesið sér til um málið eftir mína stuttu ræðu, en greint er frá öllum aðalatriðum þessa máls í þessu þingskjali. Auðvitað getum við hv. þm. tekið hér langa ræðu og farið hringinn í kringum landið. Það væri að vísu miklu skemmtilegra að gera það í góðum bíl eða á glæstum gæðingum um hálendið og skoða afréttina. Ég spyr hv. þm. hvort hann óski þess enn að ég setji lengri ræðuna á.