Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 14:57:08 (6035)

2002-03-12 14:57:08# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[14:57]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Ég er á engan hátt að draga í efa að þau vinnubrögð sem hér er lagt til að tekin verði upp, úrbóta\-áætlanir í staðinn fyrir ítölu, geti verið mjög til bóta. Fimm leiðir til að fara í þessa úrbótaáætlun eru taldar hér upp, og ég hefði talið gott að hafa ítöluna þarna með. Vissulega getur ástand gróðurs verið lélegt en e.t.v. ekki það slæmt að ekki sé hægt að hleypa einhverju fé á afrétt og því þurfi ekki alveg að loka eða girða. Ég er eingöngu að benda á að þetta gæti verið hluti af þessu úrbótaferli. Það mundi hugsanlega gera þessari úrbótaáætlun auðveldara að semja um takmörkun á fé inn á svæðin.