Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 15:05:54 (6038)

2002-03-12 15:05:54# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[15:05]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. kennslustund í greindarfari sauðkindarinnar. Það er rétt sem hann segir að sauðfé getur ferðast á milli svæða og veit ég líka um fé, svo ég segi reynslusögu eins og hæstv. ráðherra, úr einni sveit sem var selt yfir í aðra. Það skilaði sér í réttum í þeirri sveit sem það hafði verið selt frá.

Ég var bara að nefna girðingarnar sem dæmi í sambandi ítöluna. Ég var ekkert að halda því fram, herra forseti, að það ætti að fara að girða allt landið fram og til baka. En ég sé alveg fyrir mér að sum svæði séu girt eins og gert er í dag, enda er talað um það í þessu frv. í sambandi við hrossabeit að láta girða sérstök svæði á afréttum --- það stendur í c-lið --- eða í heimalöndum fyrir hrossabeit. Ég reikna með því að það eigi að vera ákveðinn fjöldi hrossa í þeim. Ekki má moka bara þangað inn hrossunum eða reka þau stanslaust inn bara af því að þar er girðing. Það eina sem ég var að hugsa um var að mögulega gætu verið slík svæði fyrir búfénað. Þetta var allt í góðu meint og sagt frekar til að styðja hæstv. landbrh. sem er að leggja fram þetta veigamikla frv.