Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 15:11:47 (6041)

2002-03-12 15:11:47# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[15:11]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru bara venjuleg skoðanaskipti á milli þingmanna þannig að það er ekki verið að fara með nein áfellisorð. Þetta er bara okkar háttur að ræða saman.

Ég tek undir með hv. þm. að ég held að sauðkindinni sé ekki um að kenna hvernig gróðri er háttað. Ég tel að miklu meiri hætta stafi af hrossabeit í dag en af sauðfénu.

Hvað varðar Landgræðsluna vil ég segja að þó að miklu hafi verið áorkað þá erum við ekki nærri búin að ljúka verkefninu. Mikið verk er fyrir höndum. En ég tel að við séum á réttri leið þar og við eigum að vinna að því eins vel og við getum. Það sem hæstv. ráðherra nefndi áðan um aðgerðir á Biskupstungnaafrétti er alveg til fyrirmyndar. Þar hafa bændur sjálfir lagt til hundruð þúsunda á hverju einasta ári, farið með fræ, áburð, gamlar heyrúllur og unnið verulegar bætur. Þetta eru bændur að gera um allt land, hver á sínu landi. Þeir eru virkilega að vinna með Landgræðslunni í því að græða landið upp aftur.