Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 15:33:38 (6043)

2002-03-12 15:33:38# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Þetta frv. er ekki stórt í sniðum eins og það lítur út á blaði. Hins vegar hafa spunnist um það nokkrar umræður og til þess er fullt tilefni. Ýmislegt hefur komið fram í umræðunni sem rétt hefði verið að víkja að en óþarft er að endurtaka. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. landbrh. muni víkja að þeim atriðum í lokaræðu sinni.

Ég vil aftur á móti nefna það sem stendur í hinni nýju 15. gr. eða a-lið 3. gr. þessa frv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórnum er skylt að fylgjast með ástandi gróðurs og jarðvegs á afréttum og heimalöndum og skulu þær hafa um það samráð við Landgræðsluna.``

Nú kann að vera --- ég er ekki með lögin fyrir framan mig --- að þetta hafi verið með þessum hætti í lögunum. Ég sé hins vegar á umsögn fjmrn. að það telur að frv. hafi ekki í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð. Ég spyr þess vegna: Er verið að leggja nýjan kostnað á sveitarstjórnir í landinu? Eða hver greiðir kostnað sveitarstjórna við það að fylgjast með ástandi gróðurs og jarðvegs á afréttum og heimalöndum?

Ég tel að menn verði almennt að fara nokkuð varlega þegar verkefni eru færð yfir til sveitarstjórna. Það er þekkt að margar sveitarstjórnir standa illa fjárhagslega og hefur svo verið um nokkurra ára bil. Ég held að menn verði að skoða það vandlega, þegar verið er að færa verk yfir á herðar sveitarfélaganna, hvar þau eiga að taka tekjur fyrir því í staðinn.

Nú kann að vera að sveitarfélögunum hafi áður verið markaður tekjustofn fyrir þessum aukna kostnaði sem mér virðist í frv. Alla vega er ekki litið svo á í umsögn fjmrn. að hann færist á ríkissjóð. Þess vegna spyr ég og hæstv. landbrh. getur þá svarað eða komið með ábendingar um hvernig þessum málum hefur verið háttað.