Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 16:16:01 (6057)

2002-03-12 16:16:01# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[16:16]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Enn er rætt um þetta frv. til laga um breytingu á lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum.

Það hefur verið talað um nafngiftina Landgræðslu Íslands. Það stóð í þessum lögum, Landgræðsla Íslands. Nú mun hún eiga að heita Landgræðslan ef frv. verður samþykkt. Þetta er svo sem til samræmis við heitið Landhelgisgæslan. Það má leika sér á ýmsan máta með nafngiftir á stofnunum. (Landbrh.: Þjóðkirkjan.) Þjóðkirkjan, já er eitt, ekki Þjóðkirkja Íslands. En við vitum alveg að Landgræðslan er í eigu samfélagsins og á að þjóna íslenska samfélaginu. Frv. er gert til þess að styrkja hana og ég vona að það verði líka til þess að fleiri komi að landgræðslumálum og að fleiri í samfélaginu fái áhuga á því að klæða landið gróðri þar sem það á við sem best. Ég er ekki að segja að það eigi að klæða allt landið gróðri, t.d. eru sums staðar svartir sandar sem mega vera ógræddir þó aðrir þeirra hafi sviðið græna engireiti eins og segir í kvæði einu.

Herra forseti. Það vakti athygli mína áðan að hæstv. landbrh. tók þannig til orða að það væri ekki hyggja neins að koma aftan að neinum með því að háeffa Landgræðsluna, ef ég skil rétt ... (Gripið fram í.) Já, að Landgræðslan fengi háeff fyrir aftan. En við orðalagið ,,að koma aftan að neinum`` vakna ýmsar spurningar um hvað það merki þegar hæstv. ráðherra tekur svona til orða. Kannski tengist það eitthvað Landssímanum.

Þá vík ég aftur að frv., herra forseti. Eins og fram hefur komið er þetta gert til þess að koma fram með reglur og ákvæði í samræmi við nýja frv. sem lagt hefur verið fram um Landgræðsluna og til að minna okkur á að ofbeit sé ekki til staðar. Þegar talað er um ofbeit held ég að við hljótum að hugsa sérstaklega til hrossa enda er sérstaklega kveðið á um þær skepnur í frv. Eins og menn vita eru sum svæði stórlega ofbeitt og jafnvel innan girðinga er hrossum stundum beitt á allt of lítinn skika. Þetta kemur náttúrlega líka inn á ákvæði annars frv. um búfjárhald sem einnig liggur fyrir þinginu þannig að hæstv. landbrh. stendur í ströngu við að leggja fram ýmis frv. um málefni landbúnaðarins. Er það vel þegar lögð eru fram mál sem eru til góðs og til framdráttar fyrir íslenskan landbúnað.

Þessi orð komu í huga mér sérstaklega út frá hugleiðingum hæstv. landbrh. þegar hann sagði að ekki væri verið að koma aftan að neinum. Ég átti heldur ekki von á því, herra forseti, að hæstv. landbrh. mundi gera það.