Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 16:21:07 (6058)

2002-03-12 16:21:07# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[16:21]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessi síðustu ummæli og vona að þau standi til eilífðar, þ.e. að ég muni aldrei koma aftan að neinum, því ekki er gott að það búi í eðli manna að svíkjast aftan að mönnum og fara öðruvísi að en þeir segja. Þetta var sagt svona í beinu svari við fyrirspurn frá öðrum hv. þm.

Hv. þm. ræðir ofbeit hrossa. Nú veit ég ekki hvort hv. þm. er hestamaður. Eitt sem hestamenn verða að hafa eru lítil sveltihólf (Gripið fram í: Mér finnst hrossakjöt gott.) til þess að halda þeim grönnum og góðum til reiðar. Þar geta verið ljótir blettir. En hitt er annað mál að við sjáum því miður illa beitta hrossahaga sem ber að taka á.

Svo er annað sem við verðum að hafa í huga og ráðum kannski betur við en margt annað. Við erum að greina skemmdarverk manna. Ég sá það síðast í sjónvarpsfréttatíma, í Ríkisútvarpinu líklega, að inni á Landmannalaugum ristu menn jarðveginn á stórum jeppa og skildu eftir blóðug sár í holdi landsins. Þau geta fætt af sér uppblástur og eyðileggingu þannig að það er mjög mikilvægt fyrir alla Íslendinga sem unna landi sínu og ekki síst þá sem vilja vera á ferðalögum á hálendinu og hvar sem er að gæta að því að fara ekki út af slóðum og gæta þess að rista ekki landið eins og við sjáum allt of mörg dæmi um að er gert með hinum stóru jeppum sem þar fara um. Þetta hrekkir auðvitað náttúruunnendur. Þarna þurfum við sjálf að veita mikið aðhald og einangra þessa eyðileggingarmenn og segja frá þeim þannig að hægt sé að taka á þessum málum og skapa þjóðarsamstöðu, hæstv. forseti.