Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 16:54:52 (6064)

2002-03-12 16:54:52# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[16:54]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Landbrh. hefur ekkert á móti því að verða landbrh. sjávarjarðanna og tekur undir þau sjónarmið sem hv. þm. setur hér fram, að það var réttur jarðanna til forna og fram eftir allri síðustu öld að eiga sinn reka og veiðirétt. Það eru auðvitað stórmál sem verið er að fjalla um núna á meðal bænda og þeir eru að vinna sín gögn í því. En það mál er ekki til umræðu í dag. Þó að maðurinn við brúsapallinn vilji láta sjónarmið sín koma fram við þessa umræðu þá ræður sá sem hér er engu um það en hæstv. forseti brosir og hefur auðvitað gaman af þessari umræðu eins og aðrir þegar hún fer út um víðan völl en þannig er nú lífið. Kannski auðgar það umræðuna fyrir þá sem fylgjast með í sjónvarpinu að hér er lifandi umræða. Kannski má maður ekki kallan þennan virðulega stól brúsapall heldur er þetta ræðustóll í Alþingi Íslendinga sem er hátíðlegur ræðustóll og hin alvarlegustu mál eru hér krufin og rædd.

Ég skil það ósköp vel að hv. þm. sakni ríkisins úr nafngiftinni. Það er í eðli hans flokks, vinstri grænna, rauðra grænna. Ég var búinn að fara yfir þetta fyrr í dag og sagði þá að kommarnir hefðu komið svo miklu óorði á ríkið í mörgum þjóðlöndum að eiginlega vildi enginn hengja það aftan á sig. Þeir hafa lagt auðug lönd, nytjalönd, í auðn og skapað fátækt með kerfi sínu og stjórnmálastefnu. Við deildum um þetta hér, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem taldi reyndar að frjálshyggjan hefði komið óorði á nafn ríkisins. Það er auðvitað umræðuefni. Ég vil að Landgræðsla ríkisins heiti Landgræðslan, Landgræðslan í Gunnarsholti eins og skýrt var tekið fram hér, hæstv. forseti.