Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 16:57:07 (6065)

2002-03-12 16:57:07# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[16:57]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það þurfi að setja sérstök lög um afréttamálefni til þess að smala hæstv. landbrh. að brúsapallinum og láta hann vera þar. Hæstv. ráðherra fór um víðan völl og vildi meira að segja að draga kommúnista til ábyrgðar fyrir landbúnaðarstefnu hans og í ríkisrekstur. Ég held að það sé annað vandamál sem hæstv. landbrh. hefur núna við að glíma, alla kommúnistana í Sjálfstfl. og Framsfl. sem eru að takast á í einkavæðingarherferð ríkisstjórnarinnar, hvort sem það er Landssíminn eða bankarnir, miðað við þær sögur sem af því berast. Það er einmitt gott dæmi um það hvernig hæstv. ríkisstjórn fer vill vegar á vegferð sinni. Hún ætti að fara sem fyrst frá, a.m.k. ef þessu heldur áfram.

En ég ítreka, herra forseti, að ég tel að það væri kostur að horfa sameiginlega á hag búsetunnar bæði út frá kostum landsins og líka út frá gæðunum meðfram ströndum landsins. Ég treysti því að hæstv. landbrh. hafi þau áhrif sem honum er mögulegt innan ríkisstjórnarinnar til að þeir hagsmunir geti þannig farið saman.