Búnaðargjald

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 17:36:21 (6072)

2002-03-12 17:36:21# 127. lþ. 95.12 fundur 600. mál: #A búnaðargjald# (gjaldstofn) frv. 59/2002, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[17:36]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. minnist á ályktun búnaðarþings og þá tillögu að lækka sjóðsgjöld nokkuð verulega, bæði gjöld til ráðunautastarfsemi og ekki síður til Lánasjóðs landbúnaðarins. Ég tel það hafa í för með sér sparnað í greininni upp á 100 millj. en á móti koma auðvitað vaxtahækkanir og annað. Ég er eins og þingheimur nýbúinn að fá þetta mál í hendur og hef ekki undirbúið frv. eða látið ráðuneytið undirbúa neitt frv. hvað það varðar. Það má auðvitað fara yfir það hvort landbn. taki það að sér, ég skal ekki segja um það. Auðvitað er eðlilegt, með svo stórt mál, að það fái pólitíska umræðu í þinginu. Mér fannst á búnaðarþingsfulltrúum að þeir teldu ólíklegt að ég kæmi þessu máli áfram í vor. En það er auðvitað undir viðhorfum þingmanna komið.

Ég tek undir með hv. þm. Ég vil ekki hunsa skilaboð búnaðarþings. Ég vil líka fara að þeim samningum sem bændur gera, t.d. eftir 66% atkvæða þeirra um að samþykkja sauðfjársamninga, svo ég minnist á það. Ég vil fara að þeirri stefnu þannig að ég er góður hlustandi þegar bændur álykta. Ég tel að þeir geri það yfirleitt af yfirvegun og vandvirkni. Ég er yfirleitt opinn fyrir því, ef hv. þm. eru þeirrar skoðunar, stjórnarflokkanir ekki síst, að menn eigi að hraða þessu máli, að ræða við formann landbn. og landbn. um þau mál á vorþinginu.