Líftækniiðnaður

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 17:51:32 (6080)

2002-03-12 17:51:32# 127. lþ. 95.14 fundur 548. mál: #A líftækniiðnaður# frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[17:51]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um líftækniiðnað. Það er 548. mál þingsins á þskj. 856.

Frv. þetta er nú lagt fram í annað sinn eftir að nokkrar breytingar hafa verið gerðar á því frá vorþingi 2001. Í breytingunum felst fyrst og fremst þrenging á gildissviði frv. af hreinum iðnaðarhagsmunum og eru þær gerðar eftir ábendingar frá þeim sem stunda vísindalegar grunnrannsóknir í líftækni.

Með frv. þessu er lagt til að lögfestar verði reglur um stjórnsýslu og eftirlit með líftækniiðnaði hér á landi. Frv. er lagt fram í samræmi við þau fyrirmæli laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, að endurskoða skuli ákvæði 34. gr. fyrir 1. janúar 2001, en samkvæmt tilvitnuðu ákvæði eru rannsóknir og nýting örvera á jarðhitasvæðum óheimil án leyfis iðnrh. Hins vegar er gengið lengra með þessu frv. Lagt er til að leyfi iðnrh. þurfi til hvers kyns atvinnustarfsemi sem byggist á líffræðilegum erfðaauðlindum og notkun líftækni. Það felur í sér hagnýtar rannsóknir og hagnýta framleiðslu eða úrvinnslu á líftækniafurðum unnum úr örverum, plöntum og dýrum.

Rétt er að taka fram að frv. tekur ekki til lífsýna úr vefjum manna eða almennra náttúrufræðilegra rannsókna, t.d. rannsókna á lífríki sjávar.

Ákvæði 34. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, kom inn í frv. við meðferð þess á Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997--1998. Ákvæðið var m.a. rökstutt með því að brýna nauðsyn bæri til að setja á næstu árum heildarlöggjöf um hagnýtingu lífrænna verðmæta. Mótun slíkrar löggjafar tæki þó nokkurn tíma. Því væri lagt til að bætt yrði við ákvæði um rannsóknir og nýtingu örvera á jarðhitasvæðum, en sú aðferðafræði sem frv. byggði á við um rannsóknir og nýtingu félli vel að verndun þeirrar auðlindar sem fælist í örverum.

Þó að rannsóknir og nýting örvera á hverasvæðum falli ágætlega að lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, verður ekki sagt að rannsóknir og hagnýting á ýmsum öðrum líffræðilegum erfðaauðlindum falli með sama hætti vel að lögunum. Ákvæði laganna eru sniðin að þeim auðlindum sem finna má í jörðu. Þær líffræðilegu erfðaauðlindir sem unnið er með í líftækniiðnaði eru miklu fjölbreyttari og eiga m.a. uppruna sinn að rekja til dýra. Þess vegna er eðlilegt að frv. það sem hér er lagt fram taki til líftækniiðnaðarins í heild án tillits til þess hvar hinar líffræðilegu erfðaauðlindir eiga uppruna sinn.

Sú leið sem farin er í 34. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, að miða leyfisskyldu eingöngu við rannsóknir og nýtingu á örverum sem vinna má á jarðhitasvæðum, átti rætur að rekja til þess að rannsóknir á hveraörverum höfðu verið stundaðar á Iðntæknistofnun allt frá árinu 1985. Þær rannsóknir voru komnar nokkuð lengra en sams konar rannsóknir í líftækni með annað erfðaefni. Aðgangur vísindamanna hvaðanæva að úr heiminum að jarðhitasvæðunum hafði verið óheftur með öllu og lítil vitneskja var til um hvar sýni hefðu verið tekin. Þó var vitað að afurðir örvera sem teknar höfðu verið á íslenskum jarðhitasvæðum voru verðmætar í alþjóðaviðskiptum, án þess að nokkur arður af viðskiptunum félli Íslendingum í skaut.

Þróun líftækninnar hefur verið mjög ör hin síðari ár. Nýr hátækniiðnaður sem byggist á samtvinnun líftækni og upplýsingatækni er nú í miklum vexti um allan heim, m.a. hér á landi. Líftækniiðnaðurinn er orðinn þverfaglegur í þeim skilningi að ekki skiptir sérstöku máli hvaðan erfðaefnið er upprunnið. Af þessu leiðir að ekki er ástæða til að flokka líftækniiðnaðinn eftir hefðbundinni atvinnuvegaskiptingu, t.d. að binda hann við sjávarútveg eða landbúnað.

Í frv. þessu er lagt til að lögfestar verði reglur um stjórnsýslu og eftirlit með líftækniiðnaði. Jafnframt er iðnrh. falið að gæta hagsmuna líftækniiðnaðarins, t.d. gagnvart erlendum fyrirtækjum sem sækjast eftir hagnýtingu íslensks erfðaefnis og gagnvart löggjöf og stjórnvaldsfyrirmælum sem við kunnum að þurfa að lúta vegna alþjóðlegra samninga, t.d. í tengslum við ESB. Ekkert eitt stjórnvald gætir þessara hagsmuna nú og er frv. ætlað að bæta úr þeirri þörf. Þó skal áréttað að frv. er ekki ætlað að vera heildstæð löggjöf á sviði líftækniðnaðar heldur fyrst og fremst að mæla fyrir um stjórnsýsluþáttinn, þ.e. yfirstjórn og eftirlit iðnrh.

Í frv. er miðað við að iðnrn. fari með þann þátt sem snýr að nýtingu erfðaauðlinda en að umhvrn. hafi með höndum þá hlið sem snýr að vernd lífveranna eins og verið hefur. Þannig er ekki hróflað við gildandi fyrirkomulagi.

Frv. þetta er í reynd annað tveggja samstæðra frv. um erfðaauðlindir í íslenskri náttúru. Á vegum umhvrh. er unnið að gerð frv. um þau verndarviðmið sem nauðsynlegt er að gæta vegna nýtingar erfðaauðlinda.

Hæstv. forseti. Ég mun nú gera grein fyrir efni frv. sem skiptist í þrjá kafla.

Í I. kafla frv. eru ákvæði um gildissvið og skilgreiningar, en frv. tekur til líftækniiðnaðar sem er atvinnustarfsemi sem byggist á líffræðilegum erfðaauðlindum og notkun líftækni. Í atvinnustarfseminni felast rannsóknir og framleiðsla eða úrvinnsla á líftækniafurðum unnum úr örverum, plöntum og dýrum. Utan gildissviðs frv. falla því vísindalegar grunnrannsóknir og hvers konar náttúrufræðilegar rannsóknir þótt beitt sé líftæknilegum aðferðum í þeirri rannsóknarstarfsemi. Þetta getur m.a. átt við um greiningu mismunandi stofna, tegunda, dýra og plantna.

Í II. kafla frv., sem er mikilvægasti kaflinn, eru ákvæði um stjórnsýslu líftækniiðnaðarins og er lagt til grundvallar að iðnrh. fari með yfirstjórn málaflokksins. Þar eru einnig ákvæði um rannsóknar- og nýtingarleyfi, umsóknir og tilkynningar, skilyrði rannsóknar- og nýtingarleyfis, endurgjald fyrir nýtingu auðlinda, efni rannsóknar- og nýtingarleyfis, afturköllun leyfis og eftirlit ráðherra.

Í III. kafla frv. eru ýmis almenn ákvæði, þ.e. bann við framsali, stjórnvaldsfyrirmæli, refsiákvæði og gildistöku\-ákvæði.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum leggja áherslu á að meginefni þessa frv. felst í því að settar eru meginreglur um stjórnsýslu líftækniðnaðarins. Hér er því verið að bæta úr brýnni þörf á reglum á þessu sviði. Hins vegar er ekki verið að leggja til að lögfestar verði heildstæðar efnisreglur um líftækni.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.