Líftækniiðnaður

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 18:10:08 (6087)

2002-03-12 18:10:08# 127. lþ. 95.14 fundur 548. mál: #A líftækniiðnaður# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[18:10]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Aðeins í tilefni af þessum orðum þá er það staðreynd að með lögunum um gagnagrunn á heilbrigðissviði er einu fyrirtæki veitt einokandi aðstaða. Það er staðreynd. Fyrir milligöngu íslenska heilbrigðiskerfisins eru því fyrirtæki veittar heilsufarsupplýsingar um íslenska þjóð. Menn hafa að sönnu rétt til þess að segja sig úr þeim grunni og þúsundir manna hafa þegar gert það en geri fólk það ekki renna upplýsingar til þessa fyrirtækis sem hefur síðan vald yfir því hvernig þær upplýsingar eru nýttar til rannsókna. Ef aðrir aðilar eða önnur fyrirtæki vilja komast inn í þær upplýsingar, þá gæti það verið gert þess vegna fyrir gjald eða það yrði að vera sýnt og sannað að það væri ekki í samkeppni við fyrirtækið eða mundi ekki skerða verslunarhagsmuni þessa fyrirtækis.

Þetta er löng saga eins og við þekkjum sem hefur verið rædd mikið og m.a. á Alþingi, allt of lítið þó því ég held að þarna hafi Íslendingar stigið skref sem þeir betur hefðu látið eiga sig.

Það eru mjög mikil átök í heiminum um hvert beri að stefna á sviði vísinda og menn hafa af því áhyggjur. Maður sér það í greinum sem eru núna birtar þessa dagana, mánuðina og missirin í vísindatímaritum, læknatímaritum þar sem menn hafa áhyggjur af því að verið sé að markaðsvæða allar rannsóknir. Menn hafa leitt getum að því að það sé þessi þátttaka samfélagsins í rannsóknum sem sé og hafi verið ein helsta driffjöður framfara á 20. öld. Nú sé það hins vegar að gerast að markaðsöflin séu að ná tökum á rannsóknum innan læknavísindanna og annars staðar og það kunni ekki góðri lukku að stýra.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna en ég vildi þó nefna þetta í því samhengi að tryggja þurfi að við bregðum ekki fæti fyrir vísindamenn og vísindarannsóknir með því að koma tilteknum aðilum í einokandi aðstöðu.

Síðan er að hinu að hyggja líka að sjálfsögðu að við þurfum að búa svo um hnútana að hægt sé að nýta þessa auðlind sem við búum yfir til góðs og þá til þess að framleiða vörur. Eins og ég gat um áðan og eins og hæstv. ráðherra nefndi í inngangsræðu sinni eru þess dæmi, telja menn, að rannsóknir sem eru upprunnar á Íslandi hafi skilað sér inn í verslunarvöru á erlendri grundu. Ég tek því að sjálfsögðu undir það að huga ber vel að þessu, það þurfi að búa vel um stjórnsýsluþáttinn en þetta var það atriði sem ég vildi koma á framfæri við 1. umr. málsins um frjálsar og óheftar rannsóknir vísindamanna.