Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 18:30:33 (6091)

2002-03-12 18:30:33# 127. lþ. 95.16 fundur 575. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (fiskiskip, varðskip, skemmtibátar o.fl.) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[18:30]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 76/2001, um áhafnir íslenskra farþega- og flutningaskipa.

Með frv. þessu er lagt til að sett verði ein heildarlöggjöf um áhafnir og mönnun allra íslenskra skipa, þar með talið fiskiskipa. Á síðasta löggjafarþingi var lagt fram frv. til laga um áhafnir íslenskra skipa. Við meðferð þess í þinginu var ákveðið að takmarka gildissvið þess við farþegaskip og flutningaskip. Ástæðan var sú að þau ákvæði frv. sem fjölluðu um fiskiskip voru talin hafa áhrif á gang mála milli sjómanna og útvegsmanna en þá stóðu yfir kjarasamningar. Var frv. samþykkt frá Alþingi sem lög um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001. Það var samkvæmt ósk og beiðni minni til hv. samgn. að samgn. flutti brtt. við frv. sem þá lá fyrir þinginu sem leiddi til þeirrar niðurstöðu.

Samgrn. hefur ásamt Siglingastofnun yfirfarið ákvæði frv. sem lutu að fiskiskipum og fengið til ráðgjafar sérfræðing á þessu sviði til að fara yfir allar hliðar málsins. Niðurstaða þeirrar vinnu er frv. sem hér er lagt fram, en auk þess hafa starfsmenn samgrn. og Siglingastofnunar unnið mikið að undirbúningi málsins.

Helstu breytingar frá frv. sem lagt var fram á síðasta þingi eru í 8. gr. Þar er nýjum kafla, III. kafla, bætt við gildandi lög. Þar eru einkum ákvæði um lágmarksfjölda skipstjórnar- og vélstjórnarmanna sem hafa tekið breytingum. Auk þess eru ákvæði um skírteini áhafnar fiskiskips gerð mun ítarlegri.

Helstu breytingar frv. frá gildandi lögum eru að hlutverk Siglingastofnunar Íslands er aukið talsvert við ákvörðun um mönnun fiskiskipa. Nái frv. fram að ganga mun Siglingastofnun ákveða lágmarksfjölda stýrimanna á fiskiskipum sem eru 500 brúttótonn og stærri. Jafnframt mun Siglingastofnun ákveða lágmarksfjölda vélstjórnarmanna á fiskiskipum með 750 kílóvatta vél og stærri og gefa út öryggisskírteini um lágmarksmönnun, þar sem kveðið verður á um lágmarksfjölda skipstjórnar- og vélstjórnarmanna í áhöfn og skírteini fyrir einstakar stöður.

Samkvæmt gildandi lögum er lágmarksfjöldi skipstjórnar- og vélstjórnarmanna á skipum af þessari stærð tiltekinn í lögunum sjálfum. Með frv. er lagt til að það verði á valdi Siglingastofnunar að ákveða með öryggisskírteini um lágmarksmönnun hver eigi að vera lágmarksfjöldi skip\-stjórn\-ar- og vél\-stjórnarmanna á stærri fiskiskipum. Í því efni mun Siglingastofnun taka mið af stærð, verkefnum, úthaldi og farsviði skipanna, sem og skipulagi vakta um borð og nauðsynlegum hvíldartíma í samræmi við reglur þar um.

Að vel athuguðu máli þykja öll rök standa til þess að hafa ekki lögbundin ákvæði um lágmarksfjölda skipstjórnar- og vélstjórnarmanna á stærri fiskiskipum, heldur verði tekið mið af verkefnum þeirra hverju sinni. Niðurstaða þess getur jafnt orðið sú að gerðar verði auknar kröfur um lágmarksfjölda þessara manna. Mikilvægast er þó að jafnan verði þess gætt að manna stærri fiskiskip svo örugglega sé unnt að sinna öllum þáttum sem tryggja öryggi áhafna og skips. Samkvæmt lögum nr. 76/2001 ákveður Siglingastofnun mönnun farþegaskipa og flutningaskipa.

Þá er hlutverk Siglingastofnunar aukið með því að undanþágunefnd og mönnunarnefnd fiskiskipa verða lagðar niður og verkefni þeirra færð til Siglingastofnunar. Siglingastofnun hefur á að skipa sérfræðingum á öllum sviðum siglinga og er að mínu mati eðlilegt að henni sé falið þetta verkefni. Vegna þeirra breytinga sem hér eru lagðar fram er gert ráð fyrir að Siglingastofnun verði efld og henni gert kleift að sinna þessu mikilsverða verkefni með þeim sérfræðingum sem hún hefur yfir að ráða.

Með frv. er lögfest sú regla að auk skipstjóra skuli vera einn stýrimaður að lágmarki á fiskiskipum sem eru 50--500 brúttótonn. Í frv. sem lagt var fram á síðasta þingi var miðað við að lögfesta mönnun á skipum allt að 700 brúttótonn. En í þessu frv. er viðmiðunin 500 brúttótonn. Jafnframt er í frv. gert ráð fyrir að fjöldi vélstjóra um borð í fiskiskipum sem búin eru aðalvél frá 375--750 kílóvött skuli vera einn en tveir þegar skip er stærra en 50 brúttótonn og útivera er lengri en 30 klukkustundir.

Með frv. þessu eru lögfest ýmis ákvæði alþjóðasamþykktar um menntun, þjálfun og vaktstöður og skírteini sjómanna á fiskiskipum, svokallaðrar STCW-samþykktar. Utanrrh. leggur fram till. til þál. þar sem óskað er heimildar Alþingis til að fullgilda alþjóðasamþykktina. Þessi samþykkt fjallar um skírteinisútgáfu til handa skipstjórum, stýrimönnum, vélstjórum og fjarskiptamönnum um borð í fiskiskipum sem eru 24 m að lengd og lengri. Samþykktin er fyrsta tilraun til þess að samræma bindandi lágmarksstaðla um menntun og þjálfun áhafna fiskiskipa. Mikilvægt er að Ísland fullgildi þessa samþykkt og leggi sitt af mörkum til að hún öðlist gildi alþjóðlega. Sams konar samþykkt hefur öðlast gildi hvað varðar farþegaskip og flutningaskip. Vegna þeirrar samþykktar hefur skapast grundvöllur fyrir gagnkvæmri viðurkenningu 100 ríkja á atvinnuskírteinum áhafna á farþega- og flutningaskipum.

Það frv. sem hér er lagt fram, hæstv. forseti, er afrakstur þeirrar vinnu sem ég vitnaði til í upphafi. Það er auðvitað alveg ljóst að það er afar viðkvæmt og vandasamt að setja lög um áhafnir og fjölda í áhöfnum skipa. Það er ekki svo að hægt hafi verið að ná algerri samstöðu milli útvegsmanna og samtaka sjómanna en ég tel að með þessari breytingu sé farin sú leið sem mest sátt getur orðið um og það er að sjálfsögðu afar mikilvægt.

Herra forseti. Að lokinni umræðu legg ég til að frv. verði vísað til hv. samgn. og til 2. umr.