Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 18:53:41 (6096)

2002-03-12 18:53:41# 127. lþ. 95.16 fundur 575. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (fiskiskip, varðskip, skemmtibátar o.fl.) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[18:53]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við tökum til við að ræða frv. sem var dregið út úr þinginu í fyrra til þess að reyna að ná frekari sátt um málsmeðferðina og ég vona svo sannarlega að það hafi tekist með því frv. sem hæstv. samgrh. kynnir hér, þ.e. að um það ríki sátt varðandi mönnun og annað slíkt og þá framsetningu sem hér birtist.

Svo mátti skilja á máli hæstv. samgrh. að hann teldi að frv. væri nú lagt fram í sátt við sjómannasamtökin og hagsmunasamtök þeirra.

Það er svo sem hægt að hafa um frv. langt mál en ég ætla ekki að gera það við 1. umr. vegna þess að eins og eðlilegt er verður frv. sent m.a. til sjómannasamtakanna og útgerðarmanna og viðhorf þeirra koma þá fram varðandi þau atriði sem í frv. eru. Það eru þó nokkur atriði sem ég vil gera að umræðuefni og spyrja um. Fyrsta spurning mín snýr að 1. og 2. gr. Hún er sú hvort hæstv. samgrh. viti hversu mörg ríki hafi þegar staðfest STCW fyrir fiskimenn, STCW-F sem er alþjóðasamþykkt um menntun, þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna sem við erum nú að fara að samþykkja fyrir fiskiskip og staðfesta.

Ekki voru mjög mörg ríki búin að staðfesta þetta í fyrra þegar við vorum að ræða frv. Ég held að þau hafi bara verið tvö, svei mér þá, Danmörk og Rússland, ef ég man rétt. Gæti þó verið að það sé misminni. Fróðlegt væri að vita hvort fleiri hafa bæst þar í hópinn því að ef ég man rétt öðlast samþykktin ekki gildi sem alþjóðasamþykkt fyrr en ákveðinn fjöldi ríkja hefur staðfest hana.

Síðan langar mig að spyrja um eldri atvinnuréttindi manna sem menn öðluðust við að fara í gegnum Stýrimannaskólann og hafa síðan uppfyllt ákvæði um siglingatíma þess tíma sem þá var í lögum og fengu útgefin skírteini í samræmi við það sem lög kváðu á um á sínum tíma. Haldin voru m.a. námskeið þar sem menn gátu fengið 80 rúmlesta réttindi ef ég man rétt fyrir nokkuð mörgum árum. Ég spyr: Hvar er tekið á þeim réttindum í frv.? Ég hef ekki komið auga á það. Kannski hefur mér sést yfir það. En ég sé ekki í lok lagagreinanna að það sé t.d. ákvæði um að eldri réttindi sem mönnum hafa áskotnast með námi sínu og starfi haldi gildi sínu a.m.k. að því er varðar innanlandssiglingar. Þetta finnst mér að þurfi að koma fram og eigi í raun og veru alltaf að koma fram í lögum þegar verið er að breyta atvinnuréttindum manna, að taka það skýrt fram að eldri réttindi hver svo sem þau voru á hverjum tíma haldi gildi sínu þannig að menn tapi ekki niður eldri réttindum sem þeir hafa haft til siglinga á ákveðnum stærðum eða gerðum skipa. Þessi námskeið um 80 tonnin minnir mig að hafi verið sérstaklega til að fækka undanþágum á ákveðnum stærðum flotans fyrir fiskiskipstjóra. Síðan var í lögum áður fyrr að skipstjórnarmenn sem tóku hinn svokallaða fiskimann, þ.e. annan bekk eða annað stig Stýrimannaskólans, öðluðust sérstök réttindi til siglinga á farskipum innan lands upp að 400 rúmlestum. Mér fyndist þurfa að taka það fram í frv. að þau réttindi héldu gildi sínu.

Auðvitað er það svo að eldri réttindi geta ekki haldið gildi sínu út fyrir landsteinana í millilandasiglingum því að við erum að undirgangast alþjóðareglur í þá veru. En þau ættu a.m.k. að geta haldið gildi sínu í strandsiglingum og innanlandssiglingum. Mér finnst að það þurfi að taka skýrt fram eins og oftast nær hefur verið þegar menn hafa verið að breyta lagabálkum, að eldri áunnin réttindi manna sem þeir hafa haft um langan aldur falli ekki niður því að löggjöf okkar að því er snýr að okkur sjálfum innan lands hefur haldið við þeim réttindum og ekki er ástæða til að fella niður réttindi manna sem þeir hafa einu sinni áunnið sér með menntun og starfi. Þetta vildi ég láta koma fram. Mér finnst vanta, eða ég hef þá ekki komið auga á það í frv., að slík ákvæði séu í því. Í gildistökunni segir bara að ákveðin lög falli úr gildi, bæði skipstjórnarmanna og vélfræðinga og vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, þ.e. lögin frá 1984 nr. 112 og 113. Ég vil benda á það strax í umræðunni að þetta atriði finnst mér að eigi tvímælalaust að vera inni.

[19:00]

Síðan er það auðvitað efni frv. Hér er talað um að breyta 30 rúmlesta réttindum í 50 brúttótonnaréttindaviðmiðun. Síðan er verið að breyta ýmsum viðmiðunum í 500 brúttótonn. Ég hygg að sú breyting, þ.e. að breyta viðmiðun t.d. varðandi stöðu 2. stýrimanns þannig að ekki þurfi 2. stýrimann á skip undir 500 brúttótonnum, þýði að á íslenska fiskiskipaflotanum séum við að fækka störfum skipstjórnarmanna um á bilinu 20--30 störf, þ.e. stöðum 2. stýrimanns. Þar með er ekki lengur bundið í löggjöfinni nákvæmlega að þarna skuli vera 2. stýrimaður. Eins og reglurnar eru í dag er hins vegar á fjöldamörgum fiskiskipum minni en 300 brúttórúmlestum 2. stýrimaður starfandi og ég veit að hæstv. samgrh. er það fullkunnugt. Ég held að örugglega sé hægt að finna lögskráningu þar sem skráður er 2. stýrimaður á skip sem er jafnvel ekki nema 150 brúttórúmlestir. Það hefur auðvitað verið ákvörðun útgerðarmanna á hverjum tíma hvort þeir vildu ráða á skip sín, ekki bara 1. stýrimann eins og skylt er samkvæmt núverandi reglum heldur einnig 2. stýrimann. Fjölmargir slíkir hafa verið starfandi á flotanum. Þess vegna er ekki sjálfgefið, þó að þessi lagabreyting verði, að störfunum fækki sem nemur því sem ég vék að áðan, þ.e. vegna þeirra breytinga að við förum að miða við brúttótonn í staðinn fyrir brúttórúmlestir. Eftir því sem mér sýndist á sínum tíma þegar ég skoðaði þetta þá komst margfeldið af 1,5 næst því að breyta brúttórúmlestum, miðað við réttindastig manna, í brúttótonn, þ.e. að 300 rúmlestir væru sama og 450 brúttótonn. Auðvitað lenda einhver skip þarna á milli, frá 450 og upp í 500 brúttótonn, og þá er ekki skylda að hafa 2. stýrimann þar.

Hins vegar á Siglingastofnun samkvæmt þessu frv. að taka sérstakt tillit til þess hvernig skip skuli mönnuð út frá öryggissjónarmiðum. Um lágmarksfjölda skipstjórnarmanna á fiskiskipum segir hér á bls. 3:

,,Sérhvert íslenskt fiskiskip skal svo mannað að unnt sé að sinna öllum þáttum sem tryggja öryggi áhafnar og skips og að framfylgt sé öllum lögum og reglum um verndun umhverfis og þá sérstaklega reglum er varða mengunarvarnir sjávar og lífríkis.``

Hér er að vísu komið nýtt áhersluatriði inn í starfsskilyrðin sérstaklega varðandi mengunarvarnirnar. Að vísu hefur verið getið um það áður í lögum að mönnum bæri skylda til að framfylgja því. En hér er það komið inn í lög um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna og vélstjóra.

Síðan er gerð hér grein fyrir skírteini áhafnar fiskiskips. Í fyrsta lagi er tilgreint hvaða skilyrði menn þurfi að uppfylla til að geta öðlast skírteini sem skipstjórar og stýrimenn og sagt að þau skuli gefin út að uppfylltum skilyrðum um menntun og þjálfun, aldur, siglingatíma, heilbrigði, sjón og heyrn. Það sem eru hin almennu skilyrði þess að menn geti fengið réttindi að stjórna skipi. Þar til viðbótar kemur svo siglingatíminn sem er frá 18 mánuðum og upp í 27 mánuði í starfi eftir því hvaða réttindastig menn eru að innvinna sér, þ.e hvort menn reyna að vinna sér inn lægstu réttindi sem stýrimaður eða skipstjóri eða hins vegar mestu réttindi sem skipstjórnarmaður, þar sem tíminn getur farið allt upp í 27 mánuði eins og fram kemur í skilgreiningu E í a-lið 8. gr. frv. á bls. 3.

Síðan eru ákvæði um hvernig farið skuli með réttindi vélstjóranna og tekið sérstaklega fram um siglingatíma þeirra einnig í 8. gr. frv. og verður það í III. kafla laganna.

Ég ætla ekki að hafa mikið lengra mál um þetta. Ég vil bara vekja athygli á því að það þarf að skoða þetta frv. Menn þurfa líka að velta því vel fyrir sér hvort betra sé að taka upp það fyrirkomulag að Siglingastofnun ákveði öryggismönnunina og ákveði í rauninni þá lágmarksmönnun yfirmanna á skipum frekar en að hafa það í lögum.

Ég ætla að leyfa mér að hafa þá skoðun --- ég tel að ég hafi fyrir henni full rök --- að störf skipstjórnarmanna og störf vélstjórnarmanna á fiskiskipum hafi orðið umfangsmeiri á undanförnum árum frekar en að þau hafi verið einfölduð. Að vísu hefur komið til mikið af tæknimöguleikum við að annast þessi störf. En það þarf líka að viðhalda tækninni, kunna á hana og kunna að nota hana og vissulega hafa störf verið færð á yfirmenn skipa. Ég get nefnt sem dæmi að fyrir nokkuð mörgum árum síðan var starfandi loftskeytamaður um borð í mörgum þessara stærri skipa en skipstjórnarmenn hafa almennt tekið yfir öll þau störf og þar til viðbótar auðvitað notkun ýmissa tækja sem tengjast gervihnattastaðsetningu og gervihnattasamböndum vítt um veröldina.

Tæknin hefur vissulega orðið til þess að störf manna hafa breyst og ábyrgð þeirra vaxið fyrir svo utan t.d. þróunina í íslenska fiskiskipaflotanum, þ.e. í hinum stærstu skipum flotans á undanförnum árum. Hún hefur verið sú að bæði frystitogararnir og nú hin nýju nótaveiðiskip sem eru í raun fjölveiðiskip, veiða og vinna aflann um borð og frysta hann. Því fylgir auðvitað mikil tækni og mikil ábyrgð og þar fer fram mikil verðmætasköpun. Því er ekki verið að sýsla með neina smáaura þegar mönnum er trúað fyrir þeim tækjum sem þeir eru með í höndunum.

Ég lít almennt svo á varðandi það sem þarf að gera í öryggismálum um borð í fiskiskipum, að það þurfi að viðhalda og jafnvel efla almenna þjálfun manna í öryggismálum og viðhalda björgunaræfingum, enda gengur alþjóðasamþykkt um menntun, skírteini og vaktstöður út á að þjálfa eigi undirmenn. Og hverjir eiga að þjálfa undirmenn? Það eru vakthafandi skipstjórnarmenn. Ef hin stærri skip eru, eins og venja er, veiðandi allan sólarhringinn þá standa skipstjóri og 1. stýrimaður venjulega vaktir í brú skipsins svona 12 tíma hvor. Ég held að ekki sé bætandi mikilli vinnu á þá til að sjá um þjálfun mannskaps samhliða þeim störfum. Þjálfunarhlutverkið kemur því óhjákvæmilega í hlut 2. stýrimanns, þ.e. að sjá til þess að áhöfnin njóti þeirrar þjálfunar sem hún þarf þannig að samþykktin sem við erum að fara að staðfesta hér verði ekki bara nafnið eitt. Við tökum á okkur miklar skyldur samkvæmt samþykktinni. Okkur ber að viðhalda öryggi skips sérstaklega og huga alveg sérstaklega að því að undirmenn hafi gengið vaktir undir handleiðslu stýrimanna og fengið sérstaka þjálfun og tekið þátt í þjálfunarferli um borð í skipunum sem yfirmönnum er ætlað að staðfesta að þeir hafi fengið.

Ég lít svo á að kröfurnar um öryggi skips og áhafnar fari vaxandi fremur en hitt og að ábyrgð manna fari vaxandi, eins og ég hef getið um áður. Reglur um mengun hafs eru auðvitað að verða stífari og meiri kröfur eru gerðar til þess að allir gangi vel um umhverfi sitt. Það leggur svo nýjar skyldur og viðbótarskyldur á sjómenn sem aðra. Að öllu samanlögðu mundi ég því telja fá færi hjá Siglingamálastofnun Íslands að fækka stöðugildum um borð í skipum miðað við að menn eigi að standast þær kröfur sem við ætlum hér að samþykkja að fiskimenn gangist undir.