Dreifð eignaraðild í fjármálastofnunum

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 13:34:44 (6104)

2002-03-13 13:34:44# 127. lþ. 96.91 fundur 398#B dreifð eignaraðild í fjármálastofnunum# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 127. lþ.

[13:34]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það hefði betur farið á því að hæstv. viðskrh. tæki til máls eins og hv. málshefjandi ætlaðist til en hún var að koma í salinn þannig að ég skal aðeins fjalla um þetta en geri það auðvitað ekki af jafnmiklu viti og hæstv. viðskrh. mundi gera, en hún blandar sér kannski í málið hér á eftir.

Það er alveg rétt að ég hef haft áhuga á því í að okkar litla landi söfnuðust áhrif í bankaheiminum ekki á of fáar hendur og hef talað fyrir því að það væri kannað. Reyndar hefur verið sýnt fram á það að slíkt fyrirkomulag er víða til í löndum en þó ekki í flestum löndum. Í annan stað hefur komið á daginn, til að mynda í Íslandsbanka, að menn geta komist í kringum slíkar reglur með því að gera samninga milli einstakra hluthafa, samstarfssamninga innan banka o.s.frv. Að vísu hef ég skilið dæmið þannig að þeir hafi verið tímatakmarkaðir og eigi að renna út á tilteknum tíma. Mér finnst því mjög æskilegt, eins og ég segi, í okkar litla landi þar sem ráðandi bankastofnanir verði aldrei nema tvær til fjórar kannski í mesta lagi, þá verði meginvaldið nokkuð í dreifðri eignaraðild. Ég tel það vera æskilegt. Hvort hægt er að tryggja það, hvort reglur EES leiði til þess --- ég hef ekki skoðað það sérstaklega --- að það sé ekki hægt, það verður þá bara að fara yfir það nákvæmlega. Við verðum að lúta þeim reglum, eflaust taka mið af slíkum reglum ef þær eru fyrir hendi. En ég tel hins vegar að það sé í sjálfu sér æskilegt að tryggja slíka dreifða eignaraðild en það kann að vera annmörkum háð.

Nú veit hæstv. viðskrh. um hvað við erum að tala þannig að hún getur kannski blandað sér í málið.