Dreifð eignaraðild í fjármálastofnunum

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 13:43:09 (6108)

2002-03-13 13:43:09# 127. lþ. 96.91 fundur 398#B dreifð eignaraðild í fjármálastofnunum# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 127. lþ.

[13:43]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það getur vart verið ólögmætt markmið að stefna að dreifðri eignaraðild í stofnunum eða fyrirtækjum eins og bönkum. Ég held að menn hljóti að geta fundið einhverja tæknilega útfærslu á því að tryggja það að vald safnist ekki um of á fáar hendur.

Mér finnst einmitt í umræðunni undanfarið ekki síst hafa komið fram hversu hættulegt það er þegar völdin eru á fárra höndum eins og til að mynda farið hefur verið með t.d. eiganda Landssímans undanfarið. Þar höfum við séð það hvernig menn geta hegðað sér í skjóli eignarhaldsins sem er grafalvarlegt mál og ég verð að segja það líka, virðulegi forseti, að ég hef ekki síður áhyggjur af því að misvitrir stjórnmálamenn sem kunna að komast til áhrifa kunni að beita sér í ríkisbönkunum einnig. Ég held því að mjög mikilvægt sé að takmarka eignarhaldið eða dreifa því eins og kostur er og við hljótum að geta fundið einhverja tiltekna aðferð til þess því að það er einu sinni þannig að mikið vald spillir og algert vald gerspillir og ég held að enginn sé að finna upp hjólið þó að því sé haldið fram. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að við förum í það og leitum leiða til þess að tryggja dreifða eignaraðild hvort heldur það er í einkabönkum, ríkisbönkum eða stórum fyrirtækjum því að það hefur sýnt sig undanfarna daga að líklega er það það versta sem á sér stað þegar misvitrir stjórnmálamenn fara að beita sér á slíkum vettvangi.