Dreifð eignaraðild í fjármálastofnunum

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 13:44:59 (6109)

2002-03-13 13:44:59# 127. lþ. 96.91 fundur 398#B dreifð eignaraðild í fjármálastofnunum# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 127. lþ.

[13:44]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er vakin athygli á þeirri stöðu sem upp er komin í íslensku bankakerfi, einstökum bönkum, að vald er að þjappast þar saman á fárra hendur. Hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði grein fyrir því að það liggur fyrir þinginu, á borðum þingmanna, frv. til laga frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um að tryggja dreifða eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum þannig að ef þetta frv. kæmist til umræðu og yrði samþykkt þá mundi það taka á því sem hér er verið að ræða.

Herra forseti. Vandinn sem blasir við okkur er sá að það einkavæðingarferli á bankakerfinu sem var lagt af stað með og var hryggsúlan í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar hefur ekki gengið eftir þeim væntingum sem meira að segja þeir sem voru hrifnir af því og studdu það vonuðust eftir. Menn horfa því fram á aukna fákeppni í bankakerfinu, möguleika á því að það sé sami aðilinn sem bæði rekur fyrirtæki og á hlut í bankanum og kannski er sama fyrirtækið síðan einn aðalviðskiptaaðili bankans. Slík tengsl ganga einfaldlega ekki upp og eru til trafala í allri hagstjórn og í allri þróun efnahagslífsins. Þetta hefur átt sér stað einmitt í Þýskalandi á undanförnum árum þar sem slík krossbönd höfðu orðið að atvinnulífið og bankinn áttu hvort í öðru. Það leiðir til stöðnunar í atvinnulífinu og efnahagsþróuninni. Slíkt er bannað í Bandaríkjunum það ég best veit.

Það er fráleitt að við hér á hinu litla Íslandi séum að innleiða beint fákeppnisaðstöðu á fjármálamarkaði eins og nú stefnir í.