Dreifð eignaraðild í fjármálastofnunum

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 13:51:22 (6112)

2002-03-13 13:51:22# 127. lþ. 96.91 fundur 398#B dreifð eignaraðild í fjármálastofnunum# (aths. um störf þingsins), KHG
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 127. lþ.

[13:51]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það sem mér hefur fundist áberandi í öllu þessu máli og athyglisvert er þessi sterka afkoma bankanna. Í kjölfar gengisfellingar á síðasta ári virðist hafa orðið aukinn vaxtamunur sem hafi skilað sér í miklu betri afkomu bankanna en annars hefði orðið. Ég dreg þá ályktun að skortur sé á samkeppni í fjármálaheiminum og neytendur og viðskiptavinir bankanna búi við þær aðstæður að það sé ekki nægileg samkeppni á fjármálamarkaðnum.

Ég held að stjórnvöld eigi að skoða leiðir til að koma þeirri samkeppni á með miklu öflugri hætti en verið hefur. Hvort leiðin til þess er sú að setja lög um dreifða eignaraðild aðila í þessum fjármálastofnunum er ég ekki sannfærður um. Ég er ekki viss um að hægt sé að setja samasemmerki á milli þess að eignaraðild skuli vera með einhverjum tilteknum hætti og að í kjölfarið verði vaxandi samkeppni á markaðnum neytendum til góða.

En það er annað atriði í þessu sem mér finnst ástæða til að vekja athygli á, þ.e. vaxandi íhlutun og eignasöfnun aðila yfir atvinnugreinar. Við höfum séð, í því umróti sem verið hefur í kringum Íslandsbanka, að mjög umsvifamikill aðili í matvöruverslun, með sterk ítök í olíuverslun og tryggingaþjónustu er að seilast til aukinna áhrifa í bankaheiminum. Mér finnst það vera mikið umhugsunarefni hvort rétt sé að leyfa þeirri þróun að halda áfram óhindrað eða hvort ekki sé rétt að setja löggjöf sem takmarkar áhrif sterkra aðila í einni grein í öðrum atvinnugreinum, sérstaklega fjármálaþjónustu. Í gegnum ítök þar er hægt að hafa mjög mikil og slæm áhrif á samkeppnisstöðu samkeppnisaðila í annarri atvinnugrein.