Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 13:59:16 (6114)

2002-03-13 13:59:16# 127. lþ. 97.1 fundur 537. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[13:59]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Virðulegi forseti. Í október 1999 var lögð fram skýrsla sem unnin var fyrir forsrn., Byggðastofnun og Iðntæknistofnun þar sem kortlögð voru tækifæri sem talin voru geta nýst til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni á sviði fjarvinnslu. Í Degi daginn eftir, 19. október, var m.a. haft eftir hæstv. forsrh., með leyfi forseta:

,,Á blaðamannafundi í gær sagði forsætisráðherra að þarna væri á ferðinni ný hugsun og ný vinnubrögð sem ættu að gagnast landsbyggðinni til sóknarfæra í atvinnu- og byggðamálum, að þarna sé um að ræða virka byggðastefnu.``

Enn fremur sagði:

,,Með upplýsingahraðbrautinni sé tæknin hins vegar að verða vinur landsbyggðarinnar öndvert við það sem haldið var fram á sínum tíma þegar tæknin leiddi til fækkunar starfa úti um land.``

Herra forseti. Í framhaldi af þessu hef ég lagt fram svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. forsrh.:

,,Hvaða fjarvinnsluverkefni og hversu mörg störf á vegum ráðuneytisins og stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins, sem heyra undir ráðuneytið, voru flutt út á land árið 2001, sundurliðað eftir ráðuneytinu, stofnunum og fyrirtækjum, svo og eftir stöðum sem verkefnin og störfin voru flutt til? Enn fremur er óskað eftir skilgreiningu á umræddum störfum.``

Ég hef leyft mér að leggja fram þessa fyrirspurn til hæstv. forsrh. með beiðni um að fá munnlegt svar. En áður hef ég verið að fá svör frá öðrum ráðherrum þar sem ég beindi þessari fyrirspurn til allra ráðherra með ósk um skriflegt svar. Þar kemur m.a. fram, ef gripið er niður í svar hæstv. menntmrh.: ,,Engin fjarvinnsluverkefni eða störf á vegum menntamálaráðuneytisins voru flutt út á land á árinu 2001.``

Hæstv. umhvrh.: ,,Fjarvinnsluverkefni voru ekki unnin fyrir ráðuneytið og stofnanir þess á árinu 2001.``

Hæstv. dóms- og kirkjumrh.: ,,Árið 2001 voru hvorki verkefni né störf á vegum ráðuneytisins flutt frá höfuðborgarsvæðinu til staða utan þess.``

Hæstv. fjmrh.: ,,Engin fjarvinnsluverkefni voru flutt út á land árið 2001 á vegum ráðuneytisins eða stofnana og fyrirtækja þess.``

Frá hæstv. sjútvrh. kom sama svar: Engin störf. Og frá hæstv. utanrrh. kom sama svar: Engin störf.

Herra forseti. Þetta er aumur vitnisburður um árangur í þessum störfum. Þess vegna finnst mér rétt að spyrja hæstv. forsrh. út í það hvað hafi gerst á vegum hans vegna þess að skýrslan sem ég vitnaði til er glæsileg. Þar er mikil upptalning á mörgum störfum sem hægt væri að vinna. En ekkert hefur verið gert.

Ég las upp nokkur svör frá hæstv. ráðherrum fyrir árið 2001. Það sorglega við þetta er að nákvæmlega eins svar kom fram fyrir árið 2000: Því miður, engin störf.

Ég vænti þess, herra forseti, að fá skýr svör við þessari fyrirspurn frá hæstv. forsrh.