Viðbrögð við ábendingum Ríkisendurskoðunar

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:38:19 (6137)

2002-03-13 14:38:19# 127. lþ. 97.2 fundur 590. mál: #A viðbrögð við ábendingum Ríkisendurskoðunar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:38]

Ásta Möller:

Herra forseti. Sú skýrsla sem hér er til umfjöllunar er gagnleg áminning til ráðuneyta um að skoða og meta árangur nefnda á hverjum tíma. Á fundi fjárln. í gær kom ríkisendurskoðandi og fjallaði um þessa skýrslu með nefndinni. Þar kom m.a. fram að þessar nefndir mætti flokka gróflega í tvennt, annars vegar stjórnsýslunefndir sem fá greidd föst laun í hverjum mánuði og hins vegar tímabundnar nefndir.

Sá misskilningur hefur verið í gangi að fólki sé skipað í nefndir á vegum ríkisins og fái greitt fyrir enga vinnu. Ég vil að fram komi að þær nefndir sem eru tímabundið skipaðar fá ekki greitt fyrr en að lokinni vinnu, þegar þær hafa skilað árangri og í samræmi við umfang starfanna. Ég bendi á að á bak við þær 450 millj. sem fóru í að greiða fyrir nefndastörf á árinu 2000 eru um 4.000 manns sem þýðir u.þ.b. 7.000 kr. á mánuði, og ekki er það mikið.