Viðbrögð við ábendingum Ríkisendurskoðunar

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:39:33 (6138)

2002-03-13 14:39:33# 127. lþ. 97.2 fundur 590. mál: #A viðbrögð við ábendingum Ríkisendurskoðunar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:39]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er rétt að þessar skýrslur Ríkisendurskoðunar hafa ekki ljósan farveg í störfum okkar. Hins vegar hefur skapast sá háttur í fjárln. að taka þær til umfjöllunar og fá ríkisendurskoðanda á fund til að fara yfir þær. Þannig er með þá skýrslu sem hér er til umræðu. Hún hefur verið rædd á einum fundi með nefndinni og verður hugsanlega rædd áfram.

Það er mjög margt athyglisvert í þessari skýrslu en rétt er hins vegar að taka fram að þótt ákveðin gagnrýni sé í skýrslunni, og eins í þessum umræðum hér, held ég að enginn sé að ræða á þeim nótum að nefndir séu óþarfar. Þær gegna veigamiklu hlutverki í stjórnsýslu okkar.

Það er einn þáttur sem ég vildi vekja sérstaka athygli á. Hæstv. forsrh. kom líka inn á hann, þ.e. varðandi það að stór hluti nefndarmanna er opinberir starfsmenn sem sinna jafnvel þessum störfum í vinnutíma sínum. Eins og hæstv. forsrh. benti á er ljóst að ákveðinn hluti þeirra, þ.e. þeir opinberu starfsmenn sem taka laun samkvæmt ákvörðun kjaranefndar eða Kjaradóms, fær ekki sérstaklega greitt fyrir setu sína í þessum nefndum. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh. hvort hann hafi ekki af því áhyggjur að þeim aðilum hefur fækkað nokkuð í nefndum eftir að sá háttur var upp tekinn.